Ólafur vaknaði við mikið bank og sá náfölt andlit á glugga: draugagangurinn flæmir fólk burt - sérð þú hvað gerðist í herbergi sigmundar á meðan hann svaf?

Svo yfirgengilegur hefur draugagangurinn verið í elsta skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi á Kili að fólk hefur flúið þaðan unnvörpum, jafnt kvölds og morgna og um miðjar nætur, margt með þá tilfinningu innanbrjósts að verið sé að kyrkja það.

Þetta má ítrekað lesa úr dagbók skálans þar sem Íslendingar og útlendingar segja frá hræðilegum minningum sínum úr þessum alfriðaða skála í ármynnisláginni við Hvítárvatn.

Í nýlegum skrifum í dagbókinni segir:

„Frábært að vera hér en heyrði tvö hljóð um nóttina eins og væri bankað. Þá var jökulkuldi á sumum stöðum í húsinu. Ég held að ég hafi ekki verið einn.“

\"\"

Í hinum vinsæla þætti Sigmundar Ernis, Fjallaskálar Íslands,  er rætt við Ólaf Örn Haraldsson, forseta Ferðafélags Íslands sem var skálavörður á Kili á unglingsaldri, svo og hjónin Leif Þorsteinsson og Sigríði Friðgeirsdóttur sem voru við skálavörslu á milli jökla síðastliðið sumar.

Ólafur Örn segir í þættinum frá því þegar hann vaknaði um miðja nótt við mikið bank. Hann kvaðst ekki getað sofnað aftur og yrði að athuga hvað væri að eiga sér stað. Ólafur svaf upp á lofti og á mínútu 13:34 má sjá Ólaf lýsa því sem gerðist. Ólafur þokaði sér að tröppunum og þegar hann var kominn niður í þær miðjar sá hann andlit. Ólafur lýsir þessu svo:

„Þegar ég er kominn hingað, þá sé ég að það er náfölt andlit hér á glugganum. Ég hrekk við en hef kjark í mér til að skoða þetta betur,“ segir Ólafur og heldur áfram: „Þá sé ég að það eru horn eða hníflar upp úr hausnum og loðið andlit. Þá sé ég að þetta er hrútlamb sem er að bíta grasið hér og hníflarnir ganga í gluggann.“

Hrútlambið var vitanlega hræddari en Ólafur og tók á rás í burtu.  

\"\"

Aðspurður um draugaganginn í húsinu og þær ótal sögur sem hafa verið sagðar af afturgöngum svarar Ólafur:

„Þær hafa alltaf verið og þær eru margskonar. Oft er það þannig að menn séu farnir að sofa og það kemur hópur fólks ríðandi og jafnvel fólk gengur inn í húsið og gistir. Um morguninn kemur svo í ljós að það hefur ekki nokkur maður komið. Það eru margar sögur af því tagi.“

Þá kveðst Ólafur þekkja mann sem hafi í tvígang gist í skálanum og í bæði skiptin hafi hann séð konu standa við eldavélina þegar hann hafi opnað dyrnar og hún svo horfið þegar hann hafi gengið inn í skálann.  

\"\"

Þarna á kona að hafa staðið í tvígang þegar hann vina Ólafs kom þar inn!

„Svo eru ýmsar sögur, þetta er yfirleitt kona, að hún hafi tekið svo harkalega á mönnum að þeim hafi legið við köfnun. Þá þykja sumar kojur hættulegar en aðrar,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Í þessu herbergi hér, er eina kojan sem er þvert á allar aðrar kojur, hún þykir sú erfiðasta.“

\"\"

Í þessu herbergi á að vera kvað mestur draugagangur!

Sigmundur Ernir: Hefur þú virkilega á tilfinningunni að það sé eitthvað í gangi hérna?

„Við skulum orða það þannig að það eru svo margar sögur að, af mönnum, auðvitað hafa sumir verið að gantast eitthvað og komið hérna með hræ af álftum og vængi og verið með alls konar hundakúnstir,“ svarar Ólafur og heldur áfram:

„Þar fyrir utan, þá eru það margir sem segja sögur af þessu, að það er varla hægt að segja að þær séu allar algjörleg tilbúningur.“

Í lok þáttarins lagðist Sigmundur Ernir síðan til svefns í skálanum í einni af þeim kojum þar sem draugagangur á að vera kvað mestur. Sigmundur Ernir er sýndur leggjast til svefns og síðan vakna aftur, þar sem hann lýsir því svo að hann hafi sofið eins og ungabarn og ekki orðið var við neina reimleika.

Þegar betur er að gáð virðist þó eitthvað hafa átt sér stað á meðan Sigmundur Ernir svaf. Þá er það spurning hvort lesendur komi auga á það sem hafi átt sér stað frá því að Sigmundur Ernir sofnaði og þar til hann vaknaði um morguninn. Sérð þú hvað hefur gerst?

Hefur þú gist í skálanum eða þekkir einhvern sem hefur gist í skálanum eða orðið var við reimleika þar? Endilega sendu okkur línu á [email protected]

Þáttinn í heild sinni má svo sjá neðst í umfjölluninni en umræða um draugagang hefst í kringum mínútu 13:30 

\"\"

Sigmundur Ernir fer að sofa!

\"\"

Sigmundur Ernir vaknar og kveðst ekki hafa orðið var við neitt - Þegar betur er að gáð hefur eitthvað átt sér stað! Sérð þú hvað það er? Hér fyrir neðan má sjá þáttinn í heild sinni en þetta myndbrot má sjá á mínútu: 26:35