Ólafur ísleifsson glímt við veikindi: lagður inn á spítala – kallaði ekki inn varamann og sagðist ekki þekkja reglurnar á þingi

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sem áður sat á þingi fyrir Flokk fólksins mætti á þing í gær. Hann hafði þá ekki setið á þingi frá því um miðjan september. Ólafur tilkynnti ekki um veikindi né kallaði inn varamann. Eyjan greinir frá þessu. Varamaður Ólafs er Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Ólafi var vikið úr Flokki fólksins ásamt Karli Gauta Hjaltasyni eftir Klausturmálið. Þeir gengu síðan yfir í Miðflokkinn.  

Ólafur segir í samtali við Eyjuna:

 „Ég hef verið með fjarvist eins og það heitir. Það er ekki að mæta illa, fjarvist er tilkynning að hálfu þingmanns um að hann geti ekki mætt. En ég hef glímt við veikindi og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. En svo liggur nú í loftinu óbein áskorun um að menn fari sér með gát í þessum efnum, það er kostnaðarsamt fyrir Alþingi að kalla inn varamann.“

Þá var Ólafur spurður hvort ekki væri heiðarlegra að kalla inn varamann í stað þess að sinna ekki mætingarskyldu á Alþingi og vera samt á fullum launum:

„Ég er í mjög einfaldri stöðu með það, reglur um varaþingmenn eru alveg ljósar, það er algerlega á valdi þingmanns hvort hann kalli til varaþingmann. Alþingi er alveg fullkomlega upplýst um ástæðuna fyrir þessu, það þarf ekkert að tala um neinn heiðarleika í því.“

Þá segir á Eyjunni:

„Þingmenn, líkt og aðrir á vinnumarkaði, þurfa að framvísa læknisvottorði til að fá greitt fyrir þann tíma sem tapast í vinnu vegna veikinda. Hins vegar virðist það ekki hafa komið til greina hjá Ólafi, sem sagðist ekki vera kunnugt um reglurnar varðandi veikindaleyfi. Samkvæmt  þingskapalögum er meginreglan að þingmönnum sé skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni. Ef þeir forfallast ber þeim að tilkynna forseta það áður en þingfundur hefst og þá eru þeir skráðir með forföll á fjarvistaskrá. Ólafur sagði:

„Veistu ég hef ekki hugmynd um það hvernig þau mál snúa að mér persónulega. Ég hef nú verið við ýmis þingleg störf þó ég hafi ekki verið að mæta á þingið. Það eru ýmis tilfallandi störf, eins og að koma fram í fjölmiðlum.““