Ófrjósemi íslendinga í 21 í kvöld: „ég veit ekki hve oft ég hef verið spurður að því hvort að ég sé getulaus“.

„Ég veit ekki hve oft ég hef verið spurður að því hvort að ég sé getulaus, segir, Björn Gunnar Rafnsson, varaformaður Tilveru, samtaka um ófrjósemi sem hefur nú í 30 ár starfað með fólki sem glímir við ófrjósemi. En einn af hverjum sex hér á landi sem vill eignast barn á í erfiðleikum með það.

Björn Gunnar segir í viðtali við Lindu Blöndal að nokkuð víst sé að ytri aðstæður hafi haft áhrif á ófrjósemi karla í nútímanum, s.s. ýmis plastefni. Hann sjálfur glímdi við ófrjósemi sem hafði mikil áhrif á samband hans við unnustu hans svo leiðir skildu. Hann fékk hjálp í Bretlandi með hormónagjöfum.

Karlar sækja ekki í félagsskap eins og Tilveru, ef þeir gera það er það vegna þess að konan á í erfiðleikum, ekki þeir. Vandinn er enn mikið tabú meðal karla, segir Björn Gunnar og að hending sé að pör leiti til félagsins vegna vandans sem er þá karlsins megin. Það gerist varla.

Tilvera verður með afmælisboð næstkomandi laugardag á Hilton hóteli á milli 14 og 16 sem er öllum opið. Sjá meira á tilvera.is