Oddný ósátt: dónar og dusilmenni – „ja sveiattan!“

„Ef dónar og dusilmenni drekka sig fulla og tala með ruddalegum, klámfengnum og niðrandi hætti um samstarfskonur sínar en einnig fatlaða og samkynhneigða einstaklinga, eru viðbrögðin við því þá til að koma pólitísku höggi á einhvern sem tók þátt í leiknum? Eru sterk viðbrögð ekki eðlileg við slíku virðingarleysi og dónaskap?“

Þetta sagði Oddný Harðardóttir eftir viðtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Þar sagði Sigmundur Davíð að þingmenn Miðflokksins væru í raun þolendur í málinu sem upp kom eftir að fjölmiðlar birtu upptökur af þingmönnunum þar sem þeir töluðu bæði niður til kvenna og fatlaðra hið örlíka ríka kvöld á Klausturbar. Oddný er allt annað en sátt við frammistöðu Sigmundar Davíðs. Hún segir:

„Sigmundur Davíð tók þátt í „gleðskapnum“ á Klausturbar en telur að siðareglur og túlkun siðanefndar á þeim, snúist um að koma pólitísku höggi á hann sjálfan. Meint skotmark segir hann og skotið geigaði! Ja sveiattan!“

Oddný bætir við að þingmenn Samfylkingarinnar vilji siðareglur fyrir þingmenn og að á vegum Alþingis starfi siðanefnd.

„Við viljum hins vegar ekki að kjörnir fulltrúar forsætisnefndar snúi niðurstöðum siðanefndar á hvolf. Þess vegna er rétt af forsætisnefnd að staðfesta niðurstöður siðanefndar jafnvel þó þær kunni að vera umdeildar,“ segir Oddný og bætir við:

„Alþingi þarf að fara yfir allt ferlið; siðareglurnar, siðanefnd og aðkomu forsætisnefndar (sem ég tel að hvergi eigi að koma nálægt). Best væri ef við fengjum aðstoð frá ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) sem hefur aðstoðað þjóðþing víða um siðareglur og starfsemi siðanefnda.“

Þá segir Oddný að lokum:

„Sumir þingmenn eru alltaf kurteisir og koma ávallt fram við alla af virðingu og gæta einnig að virðingu Alþingis. Aðrir gera það ekki. Við megum ekki gefast upp þó að frumraunir kunni að vera umdeildar, því siðareglur og niðurstöður siðanefnda setja viðmið og veita þingmönnum nauðsynlegt aðhald.“