Gjaldskylda í bílastæði á sunnudögum: á að rukka til 20 á kvöldin - „harka­leg­ar aðgerðir“

Skipulags- og samgönguráð samþykkti í gær að lengja gjaldskyldu til klukkan 20 á „vinsælustu“ stöðunum, auk þess að taka upp gjaldskyldu á sunnudögum. DV greinir frá þessu. Þar er vitnað í Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar og forseta borgarstjórnar, en hann sagði á Twitter í gærkvöldi:

Í skipulags og samgönguráði samþykktum við að lengja gjaldskyldutíma til kl. 20 á vinsælustu stöðum. Þá verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum

Ekki hefur verið rukkað fyrir bílastæði á sunnudögum hingað til og aðeins til klukkan 18 á virkum dögum.

Eina sem er eftir svo þetta gangi í gegn er að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins samþykki þetta. Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá þegar tillögurnar voru samþykktar en flokkur fólksins lagði fram bókun um að aðgerðirnar snerust um að gera bíleigendum erfitt fyrir og afleiðingarnar yrðu þær að fólk hætti að sækja miðbæinn heim. Í bókun sagði:

„Þetta eru harka­leg­ar aðgerðir á meðan ekki er boðið upp á strætó sem fýsi­leg­an kost.“