Mynd dagsins: kalli bjarni reiður út í stefán - „ætlarðu að halda áfram með þetta skítkast“

Karl Bjarni Guðmundsson tónlistarmaður, betur þekktur sem Kalli Bjarni, er afar ósáttur út í Stefán nokkur Björnsson sem birti mynd, sem átt hafði verið við, í grúppunni Fyndnir frændur á Facebook. Í grúppunni er birtir brandarar, sem oft á tíðum eru svartir og jafnvel kvikindislegir.  

Kalli Bjarni varð landsþekktur þegar hann bar sigur úr býtum í fyrstu þáttaröðinni af Idol Stjörnuleit árið 2004 en fljótlega fór að halla undan fæti og árið 2007 hlaut hann fangelsisdóm fyrir að smygla fíkniefnum. Kalli Bjarni kvaðst hafa verið burðardýr. Síðast var Kalli Bjarni í fréttum árið 2018 þegar DV greindi frá því að hann hefði eignast son með unnustu sinni, Önnu Valgerði Larsen. Sagði Kalli Bjarni einnig það sama ár að honum gengi allt í haginn og hann væri kominn á réttan kjöl. Þá var haft eftir Kalla Bjarna:

„Í dag einskorðast ég við það að vera heiðarlegur og samkvæmur sjálfum mér. Ég reyni ekki að vera einhver bara af því að einhver annar vill að ég sé það. Ég er náttúrulega búinn að ganga um með samviskubit í maganum yfir því að hafa í raun brugðist heilli þjóð. Ég vann fyrsta Idolið og hvað þýðir Idol? Það þýðir fyrirmynd.“

\"\"

Stefán Björnsson birti mynd af Kalla Bjarna þar sem er búið að setja eftirfarandi texta: „Ég verð á vökunni.“ Vakan voru tónleikar sem fóru fram í Valsheimilinu árið 2017. Kalli Bjarni tók ekki þátt í þeim. „Brandari“ Stefáns um Kalla Bjarna snýst um að Kalli Bjarni sé á vökunni vegna fíkniefnaneyslu, ekki vegna þess að hann stígi á svið. Stefán hefur fengið nokkrar skammir fyrir uppátækið og honum verið bent á að Kalli Bjarni eigi börn á unglingsaldri.  Kalli Bjarni er afar ósáttur og segir:

„Stefán Björnsson, þessi brandari var á netinu fyrir jólin í fyrra. Hlýtur að geta betur en að stela ársgömlum brandara, hahaha, fkn auli.“ Þá segir Kalli Bjarni á öðrum stað:

„Jæja, ætlarðu að halda áfram með þetta skítkast sem er bara að koma upp um „skítlegt“ eðli þitt.“

Þá segir Gunnar Þór Óðinsson að Stefán sé með þessu að upphefja sjálfan sig með því að „reyna“ að niðra aðra sem mest.