Hanna björk sannfærð um að jón þröstur hafi fyrirfarið sér: „ég tala um hann í nútíð og ég tala líka um hann eins og hann sé farinn“

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar Jónssonar síðan hann hvarf sporlaust í Dyflinni á Írlandi þann 9. febrúar síðastliðinn. Fjölskylda hans hefur leitað hátt og lágt á svæðinu án árangurs í að verða fimm mánuði.

Móðir Jóns Þrastar, Hanna Björk Þrastardóttir, lét á dögunum hafa eftir að sér að hún teldi að hann hefði fallið fyrir eigin hendi. Hún er gestur Sigmundar Ernis í sérstakri útgáfu af frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Í einlægu viðtali ræðir Hanna Björk um son sinn, leitina, vonina og óvissuna sem hefur fylgt leitinni og af hverju Hanna Björk hafi á endanum hafi orðið sannfærð um að Jón Þröstur hafi tekið eigið líf.

„Þegar ég frétti þetta, þá vissi ég að eitthvað alvarlegt hefði komið upp á. Vegna þess að ég fékk taugaáfall, ég vissi að eitthvað hefði verið alvarlegt. Það var [móður] tilfinningin og eins og ég þekki hann. Af því að undir venjulegum kringumstæðum þá lætur hann vita, hann hringir, lætur vita af sér. Þetta var mín tilfinning, bara ósjálfráð tilfinning,“ segir Hanna Björk.

„Síðan er vonin og það hvort eitthvað hafi gerst. Ég hafði lengi þá tilfinningu að, ég veit að fólk getur fengið geðrof, það getur gerst einn, tveir og tíu - þá er hann kannski á ráfi einhvers staðar án þess að vita hvar hann er, hver hann er. Lengi hélt ég í þá von að það hefði gerst og að hann myndi finnast, því að það gerist. Sú tilfinning kom upp, en hún er farin,“ heldur hún áfram.

Aðspurð um hvenær vonin hafi horfið segir Hanna Björk: „Ég eiginlega veit það ekki, það er svolítið erfitt að segja vegna þess að vonin er alltaf [til staðar]. Ég vona, en svo verður maður líka að halda sig við staðreyndir og ég reyni að gera það, vegna þess að þú heldur í vonina eins lengi og þú getur, og ég held enn í vonina af því að ég hef ekkert í höndunum.“

\"\"

Erfitt getur verið að skipta á milli þess að tala í nútíð og fortíð um einhvern sem hefur horfið, slík er óvissan. „Ég tala um hann bæði í nútíð, eins og hann sé hér, ég tala líka um hann eins og hann sé farinn. Af því að í rauninni hef ég engar sannanir. Þetta er mjög erfitt. Oft kalla ég einhvern hans nafni, hef gert það við strákana mína oftar en einu sinni,“ segir hún.

Viðtalið við Hönnu Björk er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 21:00.