Misnotaður af karlmanni – davíð arnar: „hann hafði byrlað mér ólyfjan“ - „ég gat með engu móti varið mig“

Samsett mynd: Instagram/davidoddgeirs

„Á meðan ég var þarna fyrir utan þá sá ofbeldismaður ástandið á mér, hann sá fórnarlamb og ákvað að nýta sér aðstöðu sína og ástand mitt. Þegar hann nálgaðist mig taldi ég mér trú um að hann ætlaði að aðstoða mig.“

Þetta segir kvikmyndagerðarmaðurinn Davíð Arnar Oddgeirsson sem kom fram í viðtali við Stundina og opnaði sig um kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir.

Davíð var staddur í vinnuferð erlendis þegar ofbeldið átti sér stað en í dag eru liðin sex ár síðan og hefur Davíð tekist að öðlast frelsi frá fortíðinni.

„Aðstæður voru þannig að við erum þarna fimm manna hópur að skemmta okkur og það var haft vín um hönd. Við byrjuðum kvöldið í heimahúsi og svo héldum við miðsvæðis og komum við á hinum ýmsu börum og skemmtistöðum. Síðan er ég allt í einu orðinn einn, ráfandi um á einhvers konar opnu svæði fyrir utan þessa staði. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það kom til eða hvað gerðist en það var nokkuð augljóst að ég var orðinn drukkinn og áttavilltur og hefði ekki átt að vera einn,“ segir Davíð sem lýsir atburðarásinni í viðtalinu.

Segir hann ofbeldismanninn hafa tekið eftir ástandi sínu og notfært sér það.

„Það næsta sem ég svo veit er að ég er staddur heima hjá þessum manni. Hann hafði byrlað mér ólyfjan sem var byrjað að virka þegar þangað var komið. Það sem gerðist næst er að ég var strípaður öllum völdum, upp að því marki að ég gat með engu móti varið mig. Ofbeldismaðurinn notfærði sér síðan aðstöðuna sem honum hafði tekist að skapa og misnotaði mig kynferðislega,“ sagði Davíð.

Fékk ekk þann stuðning sem hann þurfti

Gerandi Davíðs var samkynhneigður maður sem honum fannst alveg brenglað, verandi gagnkynhneigður sjálfur og í sambandi með konu á þessum tíma.

„Eftir að maðurinn hafði brotið á mér náði ég með einhverju móti að koma mér í burtu, sem betur fer, því þarna var ég í ókunnugu landi þar sem ég rataði ekki um og í ástandi sem ég óska engum að vera í.“

Morguninn eftir misnotkunina opnar Davíð sig við vin sinn og vinnufélaga sem reyndi að aðstoða hann en kunni ekki að takast á við aðstæður sem þessar.  

„Ég átti erfitt með mig og þurfti að fara út í garð þar sem ég lá í grasinu og kastaði upp af vanlíðan. Hann sagði mér að reyna að hafa minni læti svo að hinir myndu ekki vakna. Svo líður nóttin og nýr dagur vaknar. Þessi vinur minn minntist ekkert á það hvað hefði gerst kvöldið áður, ekki eitt orð, það var líkt og þessum atburði, ofbeldinu sem ég hafði orðið fyrir, hefði verið pakkað ofan í skúffu,“ segir Davíð.

Segir hann viðbrögð sem þessi vera umhugsunarverð og vill hann opna umræðuna.

„Í svona aðstæðum er lykilatriði hjá aðstandendum, að gefa þeim sem verður fyrir ofbeldinu alla sína athygli og stuðning. Að hlusta og vera til staðar þegar einhver opnar sig um brot af þessu tagi getur hreinlega breytt allri framvindu fyrir þolanda ofbeldis. Það eina sem skiptir máli er manneskjan og líðan hennar, allt annað þarf að víkja, því vanlíðanin og áfallið sjálft getur verið upp á líf eða dauða fyrir þann sem verður fyrir því,“ segir hann en tekur það fram að sjálfur beri hann engan kala til vinar síns enda hafi hann ekki haft meiri skilning á þessum tíma.

Mættur til starfa daginn eftir

Þögnina segist Davíð hafa skynjað sem svo að hann ætti ekki að tala um misnotkunina og daginn eftir var hann mættur aftur til starfa fyrir framan myndavélina.

„Þannig ég þurfti að vera hress og glaður og það var bara það sem ég gerði, ég get ekki sagt að það hafi verið auðvelt en einhvern veginn komst ég í gegnum dagana sem ég dvaldi þar ytra,“

Kærasta Davíðs á þessum tíma kom honum til hjálpar eftir heimkomu og segist hann eiga henni líf sitt að þakka fyrir að hafa verið til staðar fyrir hann í þessu ferli.

Ítarlegt viðtal við Davíð er hægt að lesa í Stundinni.