Skelfing meðal íbúa í mosfellsbæ: „enginn virðist vita hvaða menn þetta séu eða hvar í kjósinni þeir eru að láta þá út“

Íbúar í Mosfellsbæ hafa í nokkur ár lifað í hræðslu og óttast um heimiliskettina sína. Hafa margir íbúar þar upplifað slíkan harmleik, að heimilisdýrið hefur horfið á dulanfullan hátt og ekki komið aftur í leitirnar.

Árný Ösp Aðalsteinsdóttir vakti athygli á því þegar kötturinn hennar hvarf sporlaust þann 15. júní síðast liðinn þá eins árs gamall, geldur og örmerktur.

„Undanfarin ár hafa gæfir heimiliskettir í Mosfellsbæ verið að hverfa. Kötturinn okkar hvarf og hans er sárt saknað. Hann var mikil kelirófa og kúrði hjá börnunum okkar þegar þær sváfu. Þær spyrja stöðugt um hann,“ sagði Árný í bréfi sem hún auglýsti eftir kettinum sínum.

Árný útskýrði svo enn fremur að: „Frá því að við fluttum í Mosfellsbæ fyrir 6 árum síðan hafa 5 kisur horfið úr götunni okkar. Ég las nýlega að feðgar í holtunum eða Langatanga séu að taka kettina og skutla þeim upp í Kjós.

Enginn virðist vita hvaða menn þetta eru eða hvar sirka í Kjósinni þeir eru að láta þá út. Mig langar að biðja alla að hafa augu og eyru vel opin svo hægt sé að finna kisurnar áður en þær deyja úr hungri og svo hægt sé að ná þessum mönnum,“ segir Árný.

Hilda Allansdóttir vakti athygli á bréfi Árnýjar í hópnum Kattavaktin á Facebook og gáfu þær Hringbraut leyfi til þess að fjalla um málið.

„Þetta er ekki kötturinn okkar en okkar kisi er núna týndur og við vonum að hann hafi ekki komist í hendur þessara manna,“ sagði Hilda.

\"\"

„Það er eiginlega nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli og hreinlega er allt of mikið af óútskýrðum kattahvörfum,“ sagði Hilda í samtali við Hringbraut.

Málið hefur vakið mikla athygli og reiði fólks og margir tóku undir orð kvennanna:

„Ég verð að segja að mér finnst undarlegt hvernig hún Gríma mín hvarf – Heimilisköttur sem var alltaf í kallfæri. Hún kom alltaf þegar ég kallaði á hana. Eins finnst mér rosalega mikið af köttum að hverfa. Ég hef ekki fylgst með kattavaktinni fyrr en Gríma hvarf og ég verð að segja að ég er í sjokki! Að meðaltali eru tveir kettir á dag!“ Sagði ein kona við færslu Hildu.

Fleiri tóku undir orð hennar:

„Mín hvarf akkúrat úr Skeljatanga í maí 2014 og ekkert spurst til hennar síðan. Var alveg ofboðslega gæf og ófeimin. Hennar hefur verið sárt saknað og ég sakna hennar enn á hverjum degi.“

Þá eru enn fleiri sem þekkja til málsins og hafa heyrt sömu sögu og þær Hilda og Árný:

„Þetta hefur verið þekkt lengi í Mosó. Las eitt sinn viðtal við fólk sem átti nokkra ketti og fjórir hurfu með stuttu millibili. Þetta er alveg skelfilegt.“

„Veturinn 2004-2005 var eitthvað svipað kattahvarfsdæmi í gangi í Töngunum, Mosfellsbæ. A.m.k. 6 kettir hurfu á innan við viku, þar á meðal hann Henry okkar. Við vorum gott sem búin að gefa upp alla von um að sjá hann aftur þegar hann birtist akkúrat 6 vikum síðar, grindhoraður. Henry var, svo mikið sem ég veit, eini kötturinn sem skilaði sér heim úr því hvarfi. Nokkuð greinilegt að þarna var einhver álíka rasshaus á ferðinni og sá sem virðist ganga laus núna.“

„Heyrði af þessu sama þegar kisurnar mínar tvær hurfu með stuttu millibili fyrir einhverjum árum einmitt í Mosó.“

Fleira fólk segir kettina sína hafa horfið sporlaust og án allra ummerkja þrátt fyrir örmerkingu og ólarmerkingu.

Ljóst er að mikil skelfing er á meðal kattaeiganda í Mosfellsbæ um þessar mundir og er fólk ákveðið í því að komast að því hvað sé að koma fyrir kettina þeirra.