Með tófum og traustum kommum í Látravík

Annar þáttur nýrrar raðar um fjallaskála Íslands á dagskrá í kvöld:

Með tófum og traustum kommum í Látravík

Það verður siglt í gegnum brimskaflana úr Norðurfirði á Ströndum og allt til Látravíkur í öðrum þætti nýrrar þáttaraðar um Fjallaskála Íslands á Hringbraut í kvöld - og er óhætt að segja að þar birtist áhorfendum óvenjulegur heimur.

Hornbjargsviti í Látravík var eitt stærsta steinhús Íslands þegar hann var reistur árla á síðustu öld, hannaður af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins - og enn stendur hann við ysta haf og hefur leiðsagt mörgum sjófarendanum fyrir Horn í gegnum tíðina.

Nú er hann sjálfvirkur - og síðustu ár hefur Ferðafélag  Íslands haft þar aðsetur fyrir skálaverði sína á staðnum og ferðafólk sem hundruðum saman mætir í friðlandið á Hornströndum og nýtur þar óviðjafnanlegrar náttúruprýði.

Í þætti kvöldsins verður rætt við þann dásamlega skálavörð, Halldór Hafdal Halldórsson sem kann ógrynni sagna af svæðinu, en einnig tekið hús á Óla komma, síðasta vitaverðinum í Hornbjargsvita sem kveðst hafa notið fegursta útsýnis í Vestur-Evrópu úr eldhúsglugganum í Látravík, en fyrir utan var fáni Sovétríkjanna iðulega við hún.

Og svo er það harðneskjuleg náttúran í víkinni, fuglalífið og hlutskipti tófunnar sem trítlar allt í kringum vitahúsið svo unun er á að horfa, en áhorfendur verða ekki sviknir af þeim myndum sem sýna refinn í návígi.

Þátturinn hefst klukkan 21:30 í kvöld. Umsjá hans er í höndum Sigmundar Ernis Rúnarssonar, en kvikmyndataka er á valdi Björns Sigurðssonar. Samstarfsaðilar við þáttagerðina eru Ferðafélag Íslands og Fjallakofinn.

Nýjast