Lýsir firringu gagnvart samfélagslegri ábyrgð – grefur undan lýðræðinu

„Íslenskir fjölmiðlar eru í bráðri hættu. Dagblöð tapa peningum og eiga vart langra lífdaga auðið, netmiðlar eru almennt reknir með halla, hafa ekki almennilegan tekjugrunn, sjónvarpsstöðvar eiga undir högg að sækja gagnvart erlendu efnisveitunum. Það sér ekki fyrir endann á þessu, en framtíðin er sannarlega ekki björt. Innan fimm til tíu ára gæti fjölmiðlalandslagið verið eins og sviðin jörð.“

Þetta segir Egill Helgason á Eyjunni sem gagnrýnir Reykjavíkurborg harðlega fyrir að birta auglýsingar hjá alþjóðlegum miðlum eins og Goggle og Facebook um dagskrá menningarnætur í stað þess að birta í íslenskum fjölmiðlum. Þá er vert að benda á það að hvorki Google né Facebook borga skatta á Íslandi. Reykjavíkurborg heldur fram að hagkvæmara sé að auglýsa í erlendu miðlunum en sleppa alfarið þeim íslensku. Egill segir þetta óþolandi og bætir við:

„En til framtíðar litið er þetta uppgjöf. Ef ekki einu sinni opinberir aðilar nota íslenska fjölmiðla, hverjir þá?“

Þá vitnar Egill í blaðamanninn Jakob Bjarnar Grétarsson: Jakob Bjarnar segir:

 „Það lýsir firringu gagnvart samfélagslegri ábyrgð og stöðu sinni hjá öllum þeim opinberum aðilum, og þeir eru fjölmargir, sem beina auglýsingafé sínu frá íslenskum fjölmiðlum og til fyrirbæra eins og samfélagsmiðla sem grafa undan fjölmiðlun í landinu. Ég veit að það er þjóðaríþrótt að andskotast út í fjölmiðla. En til lengri tíma litið grefur þetta undan lýðræðinu. Hlutlæg og gagnrýnin umfjöllun um íslenskt samfélag hverfur með öllu og þar með hin upplýsta afstaða.“