Linda pé missti alla von og vildi ekki lifa: fékk heilablóðfall, beitt ofbeldi og varð gjaldþrota – „það mun birta til“

„Í ljósi nýafstaðins alþjóða geðheilbrigðisdagsins hef ég verið hugsi. Sjálf hef ég farið í gegnum allskyns andstreymi í lífinu sem hefur haft áhrif á geðheilsu mína. Sem dæmi má nefna: Ofbeldi; andlegt og líkamlegt, áfallastreituröskun, að missa lífsviljann, gjaldþrot og að tapa lífsviðurværinu, vægt heilablóðfall. Og slatti til viðbótar sem ég nenni ekki að telja upp. En ég hef ætíð kosið að láta reynslu mína ekki skilgreina hver ég er.“

Þetta segir athafnakonan Linda Pétursdóttir í pistli á Facebook. Kveðst hún vilja deila reynslu sinni í stuttu máli með það að takmarki að hún veiti þeim sem eiga við sálræna erfiðleika að stríða hvatningu, ljóstýru í myrkrinu. Við gefum Lindu orðið:

„Oft á tíðum hefur þessi reynsluheimur minn tekið á. Um tíma fannst mér ég ekki geta meira og í kjölfarið missti ég alla von og vildi ekki lifa lengur.

En sem betur fer komst ég í gegnum það. Það er nauðsynlegt að hafa einhvern sem maður getur treyst og talað við. Ég hef ætíð lagt mikla áherslu á að vinna í sjálfri mér og hlúa að mér. Ég veit að sama hversu erfið gangan er og hversu torvelt það er að ímynda sér betri tíð, þá mun sársaukinn minnka og það mun birta til.

Ég hef tamið mér það að vera meðvituð um hugsanir mínar, því það eru þær sem framkalla tilfinningar mínar. Við getum æft okkur í að breyta hugsunum okkar og smá saman breytist líðanin. Og lífið verður svo miklu betra.

Munum að það sést ekki alltaf utan á fólki að því líði illa. Komum fram við samferðafólk okkar af nærgætni og kærleika.

Það gerir okkur öllum gott.“