Guðmundur andri svarar kristjáni: „hann kristján nú auðsveipan kallar mig rakka“

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær skaut Kristján Hreinsson, heimspekingur og skáld, föstum skotum að þingheimi. Enginn virtist óhultur í beittum skrifum hans og fengu meðal annars Steingrímur J. Sigfússon, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir að finna til tevatnsins. Þingmenn almennt eru sagðir gjafmildir á loforð en starfi svo helst við að svíkja þau. Einn þingmaður fékk þó sérstaklega slæma útreið.

„Þessi skrif mín […] kalla fram í kolli mínum nafn ágæts manns, sem lengi ritaði afar hvassa gagnrýni á stjórnvöld áður en hann fór inn á þing. Og það sem meira er hann ritaði í hverri viku pistil akkúrat í þetta blað, Fréttablaðið. Hann benti margsinnis á meinsemdir og ekki er annað hægt en hrósa honum eilíflega fyrir frábær skrif. Afar slunginn penni og stílvopnin fjölmörg léku í höndum hans einsog spil í höndum töframanns,“ segir Kristján.

Hann heldur áfram: „Sá kunni að segja flórmokurum framsóknar og auðsöfnurum íhaldsins til syndanna. Sá gat nú aldeilis látið dreyrann leka af oddi pennans. Hann var sverð og skjöldur, hann var prinsinn á hvíta hestinum sem frelsaði okkur undan oki lyginnar, gunnfáni sannleikans var í höndum hans. En núna er hann á þingi og þar er hann innmúraður þagnarmeistari, rétt einsog allir hinir hlýðnu rakkarnir. Hann er núna einsog fólkið sem leyfir sér kannski þann munað að gera góðlátlegt og vinalegt grín að hinni siðblindu hjörð sem Íslandi stjórnar. Þar var á ferðinni rithöfundur sem ég hef lengi haft mætur á og mun eflaust áfram virða sem merkan höfund.“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar er sá sem um ræðir. „Fyrir síðustu kosningar var einn maður sem ég mærði, einn maður sem ég vonaði svo sannarlega að kæmist inn á þing til að hræra í svínasultunni og hrista upp í hinni daunillu ládeyðu. Ég vildi fá Guðmund Andra Thorsson á þing. Ég hafði þá skoðun að hann myndi verða fylginn sér og láta svikarana, þjófana og lygarana finna til tevatnsins. Ég trúði því að hann myndi breyta miklu. Og vissulega breytti hann miklu, því honum tókst að breyta skoðun minni,“ segir Kristján.

Hann klykkir svo út með stuttri vísu:

„Þjóðin hátt vill hrópað fá

svo hriktir vel í sperrum

en þeir sem inn á þingið ná

þjóna sínum herrum.“

Guðmundur Andri stendur á gati

Guðmundur Andri fann sig knúinn til að svara grein Kristjáns og gerir það á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann að ein rót andúðar Kristjáns í garð þingsins virðist vera sú að þingmenn hafi í minni mæli beðið hann um aðstoð þegar þeir hyggjast flytja ræðu í bundnu máli í þingveislum, eins og siður er. Kristján minnist einmitt sjálfur á í grein sinni að óskum þingmanna um liðveislu hans vegna þessa hafi fækkað í seinni tíð.

Guðmundur Andri segir: „Kristján Hreinsson skrifaði grein í dag [í gær] í Fréttablaðið um að ég sé þægur rakki sem hlýði einhverjum herrum og sé þagnarmeistari – og ég veit ekki hvað. Svona gengur það til í pólitíkinni, maður er ýmist oflofaður eða oflastaður. Kristján tekur rækilega fram í byrjun að sér sé mjög í nöp við þingið og þingmenn og samkvæmt greininni virðist ein rót andúðar Kristjáns á þinginu að hann hafi fengið fáar beiðnir um liðveislu við vísnagerð í þingveislum undanfarið, en eins og kunnugt er eiga þingmenn þar að tala eingöngu í bundnu máli.“

„Sjálfur hef ég alveg sérstaklega ekki leitað eftir hjálp Kristjáns við að banga saman vísum við slík tilefni, kannski unnið mér það til óhelgi, veit það ekki. Hann virðist hins vegar ekki vita að engin þingveisla var haldin á árinu vegna þess að verkföll voru þá yfirvofandi og ekki þótti við hæfi að þingmenn væru að gera sér glaðan dag við slíkar aðstæður.“

Hann segist annars standa á gati gagnvart grein Kristjáns og svarar vitanlega með vísu:

„Á þinginu er alltaf til einhvers að hlakka

á allskonar meðulum fæ ég að smakka

Hann Kristján nú auðsveipan kallar mig rakka

það kann ég, sem vert væri, ekki að þakka.“