Kristinn þurfti að borga 800 þúsund þrátt fyrir að vera tryggður - vill vara íslendinga við

Kristinn Sigríðarson er búsettur New Jersey-fylki í Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni. Hann veiktist, fékk alvarlega sýkingu og neyddist til að leggjast inn á spítala með bólgu í hjartasekk. Einkennin svipa til hjartaáfalls. Kristinn var sendur á bráðamóttöku og gekkst þar undir rannsóknir til að útiloka hjartaáfall. Kristinn þurfti að greiða svimandi háar upphæðir þrátt fyrir að vera tryggður og varar við því að einkavæða kerfið hér á landi.

Kristinn segir í samtali við Fréttablaðið að helstu aðgerðirnar hafi verið að fara í hjartalínurit og þræddur í gegnum slagæð. Þá fékk hann lyf sem voru tvær töflur af aspiríni, tvær töflur af Naproxen og tvær töflur af lyfinu Colchicine. Um nóttina var hann klæddur í sérstaka nuddsokka til að halda blóðrásinni gangandi. Þá fékk hann tvær máltíðir, túnfisksamloku og salat og eggjahræru og brauð. Reikningurinn fyrir þetta var 7,5 milljónir króna.

Kristinn er tryggður og borga þau um 1,6 milljónir á ári fyrir trygginguna. Þau þurfa engu að síður að greiða 820 þúsund vegna heimsóknarinnar. Þá fékk hann lyf sem kostuðu 103 þúsund krónur en í Bretlandi kostar sambærilegur skammtur 3000 krónur.

Kristinn tjáði sig einnig á samfélagsmiðlum. Þar sagði Kristinn: „Þetta á sér stað þegar allt í heilbrigðiskerfinu er rekið í gróðaskyni. Þetta snýst ekki um velmegun sjúklinga heldur, hvað er hægt að rukka fyrir.“ Kristinn sagði að lokum:

„Ég myndi hvetja alla Íslendinga sem eru að tala um einkavæðingu, að lýta til Bandaríkjanna til að sjá hvað á ekki að gera.“