Krabbameinsfélagið mun ekki lengur sjá um skoðanir - Konum verður boðið að taka sjálf sýni

Krabbameinsfélagið mun ekki lengur sjá um skoðanir - Konum verður boðið að taka sjálf sýni

Öll skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi kvenna færast frá Krabbameinsfélaginu eftir rúmt ár. RÚV greinir frá þessu. Munu Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sjá um brjóstaskoðun og munu heilsugæslustöðvar um allt land taka yfir skimun fyrir leghálskrabbameini.
 
Samningur heilbrigðisráðuneytisins við Krabbameinsfélag Íslands um skimun fyrir krabbameini mun renna út í lok ársins 2020. Skimunarráð lagði til fyrr á þessu ári að Krabbameinsfélagið myndi halda áfram að sjá um alla brjóstaskoðun, en svo virðist sem að stefnubreyting hafi verið tekin innan heilbrigðisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur ekki ákveðið hversu hátt gjald verður tekið fyrir skimum. Þá sé til skoðunar að bjóða þeim konum sem ekki mæta í skimun að taka sjálfar sýni heima hjá sér.
 
„Þannig að við getum fundið fleiri á forstigum og reynt að lækka dánartíðni af völdum leghálskrabbameins. Við höfum áhyggjur af þátttökunni sem hefur verið jafnvel í einstaka aldursflokkum undir 70% þar sem við höfum verið að stefna að 92-93% eins og gerist á bestu stöðum eins og í Svíþjóð. Það hafa verið 2-4 konur á ári sem hafa verið að deyja úr leghálskrabbameini og við viljum að sjálfsögðu að það hverfi og það deyi enginn úr þessum sjúkdómi. Þetta eru konur á besta aldri og það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir það,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Nýjast