Karlmaður réðst á konu í miðbænum í nótt - hefur ekki enn fundist

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gærkvöldi og nótt en fimmtíu og eitt mál komu inn á borð til hennar.

Um 18 leitið í gær var tilkynnt að glerlistaverki og mögulega fleiri verkum hafi verið stolið úr galleríi í miðbænum.

Rúmlega hálf fjögur í nótt fékk lögreglan tilkynning um líkamsárás fyrir utan verslun í miðbænum. Ókunnugur maður réðst á konu og veitti henni áverka. Konan gat gefið góða lýsingu á árásarmanninum en hann hefur ekki enn fundist.

Þegar klukkan var að ganga fimm í morgun var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108. Þar var þrítugur karlmaður handtekinn á vettvangi grunaður um þjófnað úr nokkrum bifreiðum. Hann var vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi óskaði starfsfólk verslunar í hverfi 109 eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á matvörum. Sakborningur var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Rúmega 21 í gærkvöldi varð umferðaróhapp á Veturlandsvegi í hverfi 110. Um var að ræða árekstur tveggja bifreiða en ekkert slys varð á fólki.