Illugi ósáttur: „þið segið ekki múkk, ekkert ykkar, ekki eitt einasta ykkar“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hélt því fram á vef Ríkisútvarpsins, að landsfundur flokksins sem fór fram um helgina hefði heppnast ákaflega vel. Þá hafi málefnalegur árangur verið góður. Á fundinum, þar sem bannað var að borða kjöt, var samþykkt ný matvælastefna og aðrar uppfærðar með tilliti til loftslagsmála. Þetta er fyrsti fundurinn frá því að VG settist í ríkisstjórn og sagði Katrín að margir nýir hefðu skráð sig í flokkinn.

Rithöfundurinn Illugi Jökulsson fjallar um fundinn og spyr hvort fólkið í VG þurfi ekki að leggja höfuðið aðeins í bleyti.

„Á ég í alvöru að trúa því að samvinna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn veki nú einróma ánægju í flokknum? Að þið séuð öll óskaplega ánægð með þann „málefnalega árangur“ sem náðst hefur í samstarfinu við pólitískan arm sægreifanna og auðstéttanna?“

Illugi spyr hvers konar vinstri flokkur það sé nú.

„Hvernig komið er fyrir dómskerfinu, eruði mjög „ánægð“ með það? Er stuðningur ykkar einróma við að nú eigi að fara að skera niður í heilbrigðiskerfi eina ferðina enn? Eru velferðarmálin á góðu róli?“ spyr Illugi og bætir við: „Þið eruð öll alveg sátt við að Bjarni Benediktsson fái að geyma stjórnarskrána oní skúffu?“

Þá segir Illugi að lokum:

„Þið segið ekki múkk - ekkert ykkar, ekki eitt einasta ykkar! - við hvernig ríkisstjórn ykkar ætlar að mæta sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnssmálum? Eruði virkilega svona glöð og ánægð og málefnalega sátt.“