Icelandair og háskólinn í reykjavík halda áfram öflugu samstarfi

Háskólinn í Reykjavík og Icelandair munu halda áfram að vinna saman að rannsóknum og öflugu starfsnámi fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group skrifuðu undir samstarfssamning á dögunum þess efnis. Undanfarin þrjú ár hefur Icelandair styrkt margvísleg rannsóknarverkefni nemenda Háskólans í Reykjavík sem eru í meistaranámi á sviði rekstrarverkfræði, markaðssetningar, greiningar á álagi, lögfræði og ýmiss konar líkanagerð fyrir starfsemi fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að tillögur að rannsóknum geti komið frá báðum aðilum. Nemendum gefst þannig tækifæri til að leysa verkefni við raunverulegar aðstæður á vinnumarkaði. Auk nemendaverkefnanna er löng hefð fyrir starfsnámi nemenda Háskólans í Reykjavík hjá Icelandair. Í starfsnámi fá nemendur dýrmæta þjálfun í að beita þekkingu sinnu á raunveruleg viðfangsefni í atvinnulífinu. Einnig veitir starfsnámið gott tækifæri fyrir Icelandair til að kynnast nemendum Háskólans í Reykjavík sem mögulegum framtíðarstarfskröftum. 

Samkvæmt samningnum mun Icelandair halda áfram sem bakhjarl hugmyndasamkeppninnar Hnakkaþon. sem er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í því beita nemendur Háskólans í Reykjavík hæfni sinni og hæfileikum til að þróa og útfæra lausnir fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg.