Í raun og veru er ég bæði feiminn og rólegur einfari

Krissa konan mín spyr mig oft þegar ég kem heim úr beinni lýsingu á fótboltaleik af hverju ég hafi orðið svona æstur. Hún þekkir mig manna best og veit hvað ég er mikill rólegheitamaður, svolítið svona inni í mér og já, bara feimin sál sem hefur litla þörf á því að láta taka eftir sér.

Svona lýsir sjónvarpsstjarnan, íþróttafréttamaðurinn og fótboltagoðsögnin Guðmundur Benediktsson sjálfum sér í stórskemmtilegu og innihaldsríku viðtali í Mannamáli kvöldsins, en þar segir hann Sigmundi Erni sögu sína, allt frá því hann byrjaði tuðrusparkið heima í Þorpinu á Akureyri og rölti yngstur manna inn á völlinn í meistaraflokksleik í efstu deild - og í hönd fóru ævintýraleg ár, en einnig erfið, sakir endurtekinna meiðsla sem þýða í dag að karlinn getur sig varla hreyft, svo ónýt eru hnén.

Og hann lýsir sjónvarpsframanum, heimsfrægðinni eftir hamfaralýsingarnar á EM í knattspyrnu, brottrekstrinum í miðju því gilli öllu saman - og hann dregur með öðrum orðum ekkert undan í stórskemmtilegu viðtali í vinsælasta þætti Hringbrautar frá upphafi.

Sem byrjar klukkan 20:00.