Hvað næst?

Útkoma skýrslu nefndar undir forystu Björns Bjarnasonar, sem skoðaði áhrif aðildar Íslands að innri markaði Evrópusambandsins eftir aldarfjórðung, markar ákveðin tímamót. Hún svarar mörgum spurningum skýrt og skilmerkilega. En hún vekur líka nýjar. Sú mikilvægasta er: Hvað næst?

Skýrslan er um fortíðina. Að henni er sannarlega nauðsynlegt að hyggja þegar horft er fram á við. Þess vegna er skýrslan ekki bara fyrir áhugamenn um sögu. Hún er mikilvægt framlag til stjórnmálaumræðu dagsins.  Ísland stendur á krossgötum rétt eins og fleiri ríki. Mikilvægt er að undirbyggja umræður um þýðingarmikil mál með málefnalegri greiningu eins og í þessari skýrslu.

Aðildin að innri markaði Evrópusambandsins felur í sér víðtækustu þátttöku okkar í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði efnahags- og viðskiptamála. Eftir lestur skýrslunnar getur enginn efast um að það hefur reynst auðnuríkt.  Skýrslan staðfestir einnig að ekkert tvíhliða samstarf hefði skilað jafn miklu. Og það er klár niðurstaða að fullveldi landsins hefur styrkst í þessu samstarfi.

En nú þarf að svara þeim spurningum sem skýrslan vekur. Kjarni málsins er sá að það er kominn tími til að fara í jafn rækilega vinnu til að greina hvernig Ísland kemur ár sinni best fyrir borð í framtíðinni. Aðildin að innri markaði Evrópusambandsins var ákveðin þegar heimsmyndin var önnur.

Togstreita Bandaríkjanna og Kína um aukin pólitísk áhrif á Íslandi og Norðurslóðum hefur birst okkur með skýrum og alveg nýjum hætti að undanförnu. Þessum nýju aðstæðum verður ekki bara mætt með skýrslu um fortíðina. 

Þess vegna er nú brýn þörf á fræðilegri greiningu á þessum nýju og um margt flóknu aðstæðum. Skýrsla um þá greiningu getur svo aftur verið grundvöllur að stefnumörkun fyrir framtíðina.

Nýjar aðstæður kalla á breytingar. Við vitum að stöðnun er hættuleg. En skýrslan um fortíðina sýnir að það er fátt sem bendir til þess að við þurfum að mæta nýjum aðstæðum með einhverjum grundvallarbreytingum á utanríkisstefnunni.

Við erum aðilar að þungamiðju Evrópusamstarfsins. Full aðild að því yrði minna skref en stigið var fyrir aldarfjórðungi. Hún yrði ekki nein grundvallarbreyting. Það yrði byggt á því sem fyrir er. En aftur á móti er líklegt að full aðild gæti styrkt pólitískt bakland Íslands þegar þrýstingur Kína og Bandaríkjanna vex. Við vitum að við þurfum slíkt bakland eða skjól.

Samvinna við Bandaríkin verður áfram mikilvæg. En við þurfum að mæta þeim með öðrum hætti en á tímum kalda stríðsins. Flest ríki Evrópu íhuga nú hvernig þau geti viðhaldið góðum samskiptum við Bandaríkin en um leið orðið óháðari þeim. Varnarmálin eru helsti veikleiki Evrópu í því tilliti.  

Fræðileg greining á áskorunum samtímans og framtíðarinnar af svipuðu tagi og birtist í nýju skýrslunni um fortíðina er brýnt verkefni í þessu ljósi. Kyrrstöðupólitíkin má ekki hindra að við tökumst á við nýjar og breyttar aðstæður og leggjum eins traustan grunn að málefnalegri umræðu um þau efni eins og kostur er.  

Ég saknaði þess í fréttum af umræðum á Alþingi um skýrsluna, að utanríkisráðherra skyldi ekki setja á dagskrá þær spurningar um framtíðina, sem hún vekur. En Alþingi getur bætt úr því.