Hitti kolbein fyrir utan krónuna og fann fyrir ónotatilfinningu: sá hann fram í tímann? fórnar okkur fyrir eigin frama

Tvö ár eru liðin frá síðustu kosningum en þær fóru fram 28. október 2017. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur síðan þá hrunið og dregist saman um rúman þriðjung eftir meðbyr í upphafi. Í tilefni þess að ríkisstjórnin hafði setið í um tvö ár hafa hinir ýmsu miðlar farið yfir hvernig staða ríkisstjórnarinnar er í dag. Þá hefur pistill eftir rithöfundinn Þórarinn Leifsson, sem birtur var á Stundinni skömmu eftir kosningar, einnig farið aftur á nokkuð flakk um samskiptamiðla.

Ef frásögn Þórarins er sannleikanum samkvæm, sem óþarfi er að efast um, þá er rithöfundurinn nokkuð forspár. Þar segir Þórarinn frá því þegar hann hitti Kolbein Óttarsson Proppé fyrir utan Krónuna á kosningadag. Þórarinn segir í pistlinum að Kolbeinn hafi staðið eins og bjöllusauður að dreifa einblöðungum fyrir Vinstri græna. Þórarinn tók við miðanum og stakk í vasann. Á þessum tímapunkti var ríkisstjórnin nýfallin vegna hneykslismáls Bjarna Benediktssonar, sem leyndi því að faðir hans hafði skrifað uppá uppreist æru fyrir barnaníðing. Þórarinn segir:

„Þegar ég var að henda gula innkaupapokanum í skottið á bílnum kallaði ég í átt að Proppé eitthvað á þá leið að hann mætti alls ekki „fara í samstarf við þessa andskota“ – ég man ekki hvernig ég orðaði þetta nákvæmlega en það fór heldur ekkert á milli mála hvað ég átti við.  

Ég tók eftir því að karlgreyið varð heldur lúpulegur við þetta ákall. Hann líkt og fraus þarna upp við vegginn, báðar hendur niður með síðum, sú vinstri kreppt utan um dreifimiðana.“  

Þórarinn heldur áfram: „Það fór ónotatilfinning um mig þegar ég renndi út af bílastæðinu, eins og ég hefði farið yfir mörk þessa ljúfa manns. Því Proppé er ágætis náungi. Æ, þið þekkið týpuna. Svona týpískur hundrað og einn gaur sem drakk rassgatið úr buxunum og hætti svo að drekka og hengdi sig aftan í réttu krakkaklíkuna. Í þessu tilviki ekki Hare Krishna eða vísindakirkjuna heldur íslenskan stjórnmálaflokk.“

Kolbeinn er ekki svo ólíkur honum að mati Þórarins sem segir: „Hvítur dekraður karl á miðjum aldri sem fær allt of marga sénsa í lífinu, glutrar niður níutíu prósent af þeim en fær samt feita stöðu á endanum. Við komum alltaf niður á tveimur jafnfljótum, Proppé og ég, aðallega af því að við erum með hvít typpi á milli lappanna í fyrsta heims landi. Við erum fæddir með silfurskeið í munninum. Svona er þetta bara. Og svona verður þetta alltaf.

Þórarinn segir að hann hafi verið kominn nánast út af bílastæðinu á leið í Nóatún þegar honum var litið aftur í átt að Kolbeini þar sem hann stóð við vegginn ásamt „draug“ Katrínar Jakobsdóttur sér við hlið. Í pistlinum hrósar hann Katrínu og segir hann dúx og vinnuhest sem taki sér sjaldan frí.

„Fólk reynir að lesa ótrúlegustu hluti út úr brosgeiflum Kötu Jak, þær þykja minna á geiflur spítt-dópista eftir fimm daga vöku.“  

Þá velti Þórarinn eftirfarandi fyrir sér: „Mun hún geta tamið karlana í svörtu jakkafötunum? hugsa ég á leiðinni yfir Suðurlandsbraut. Mun Kata Jak mylja undir sig hundrað ára gamalt feðraveldi í íslenskum stjórnmálum? Getur verið að á meðan ég sjái aðeins tvo leiki fram í tímann sé hún búin að reikna út fimmtán? Ólíklegt, en alls ekki ómögulegt.

En þegar svartsýnin grípur mig aftur óttast ég að Kata sé bara að hugsa um að dúxa, að hún vilji fá einkunnina 9,6 í völdum. Kikkið við að starfa með stóru strákunum í svörtu jakkafötunum sé svo mikið að hún sé tilbúin að fórna okkur öllum fyrir það.“

Og síðan gerðist það sem enginn átti von á, nema kannski Þórarinn, sem nokkrum vikum síðar sá Katrínu í sjónvarpinu með Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga sem voru að tilkynna að Framsóknarflokkurinn, Vg og Sjálfstæðisflokkurinn ætluðu að mynda saman ríkisstjórn. Þórarinn gat ekki horft á þáttinn nema í hálfa mínútu, þá gafst hann upp:   

„Samfélagsmiðlar hrópa að þau séu full en ég sé eitthvað miklu verra í þessu. Ég sé fólk sem er ekki fyllilega í sambandi við það sem er að gerast í kringum það,“ segir Þórarinn og skýtur fast í lokin á Katrínu sem hafði verið hávær þegar kom að innflytjendamálum eða hælisleitendum. Hann segir:

„Nokkurn veginn á sama tíma og þau fá sér kampavín með forseta Íslands á Bessastöðum er lítið barn borið út úr húsi af fimm fílelfdum lögregluþjónum. Litla barnið grætur í flugvélinni alla leiðina frá Keflavík til Frankfurt.“