Hermann segir gunnar braga hafa búið til „selahljóðið“ á klaustri

Rithöfundinn Hermann Stefánsson hefur starfað sem verktaki í fjarvinnslu fyrir Alþingi. Í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birt var í gær kom í ljós að hann hafði fengið það hlutverk að skrifa upp Klaustursupptökurnar. Verktakar taka einnig að sér að skrifa upp ræður sem birtar eru á Alþingi.

Hermann rifjar upp vinnu sína við upptökurnar og segist hafa fengið bágt fyrir frá Miðflokksmönnum. Þannig hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson líkt honum við Stasi í blaðagrein. Þá tjáir Hermann sig um selahljóðið sem heyra má á upptökunni. Selahljóðið á Klaustri varð frægt á sínum tíma en þá greindu DV og Stundin frá því að þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hefðu gert grín að Freyju Haraldsdóttur meðan þeir sátu að sumbli á barnum Klaustur við Kirkjutorg. Á upptöku sem DV hefur undir höndum sagði að mætti heyra einn þingmann herma eftir sel þegar talið barst að Freyju. Í frétt DV sagði að upptakan væri nokkuð óskýr og því ekki fyllilega ljóst hver þeirra hermdi eftir sel.

Hermann Stefánsson sem tók að sér að skrifa upp upptökurnar telur ljóst hvað þarna hafi átt sér stað. Þarna megi heyra hljóð frá Gunnari Braga Sveinssyni þingmanni Miðflokksins. Hermann segir í viðtalinu:

„Heil þjóð fékk á heilann hryllingskennt dýrahljóð sem hún hélt að væri úr sel. Það voru engin óheilindi í viðkomandi blaðamanni, bara misheyrn. En ef maður hlustar lengi heyrir maður í ansi mörgum selum.“

Þá segir Hermann:

„Það vill einfaldlega svo til að Gunnar Bragi rekur stundum upp raddlausan hlátur sem gæti minnt á sel, beint úr þjóðardjúpunum. Kynjaskepnur eru sem sagt víða. Ég met það svo að allir eigi rétt á að vita þennan sannleika sem ég held þó að hvorki Miðflokksmenn, fjölmiðlar né þjóðin vilji heyra. Er það ekki einmitt hlutverk rithöfunda að segja þannig sannleika?“

Hér má svo heyra hljóðið umdeilda. Dæmi nú hver fyrir sig: