Hermann: „mér þykir með ólíkindum það metnaðarleysi að þessi stutti spotti skuli ekki vera kláraður“

Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1, segir að hluti af þjóðveginum sem fer í gegnum Mosfellsbæ sé uppspretta biðraða, sérstaklega á sumrin þegar höfuðborgarbúar streyma úr bænum út á land. Þeir sem þekkja það að keyra á þessum vegarkafla kannast við að þurfa keyra ansi hægt eða jafnvel þurfa að vera algjörlega stopp í bifreiðum sínum.

„Á milli 2ja hringtorga í Mosó í norðurátt hefur verið skilin eftir stuttur kafli af einbreiðum vegi. Þessi vegur er uppspretta biðraðar á hverjum einasta degi ársins og uppspretta langrar biðraðar á sumrin þegar borgarbúar stefna út úr borginni.“

Þá segir Hermann að honum þyki það metnaðarleysi að tvöfalda ekki svona stuttan kafla af þjóðveginum og bendir á að um öryggisatriði sé að ræða ef það þurfi einhvern tímann að rýma höfuðborgarsvæðið.

„Mér þykir með ólíkindum það metnaðarleysi að þessi stutti spotti skuli ekki vera kláraður öllum landsmönnum til gagns. Þessu til viðbótar þá er þetta stórt öryggisatriði til að hægt sé að rýma borgarsvæðið ef til þess skyldi koma. Hvað skyldi dvelja framkvæmdir?“