Helgi seljan um fréttaflutning morgunblaðsins: „eins og barn sem komið hefur að jólasveininum skegglausum“

„Það er næsta aðdáunarvert að vitna hvernig blaðamaður Morgunblaðsins reynir að föndra upp bjarghring utan um nýjan forstjóra Samherja í blaði dagsins, þegar hann spyr, eins og barn sem komið hefur að jólasveininum skegglausum, hvort Samherjamenn haldi ekki örugglega að það sé engin hætta á öðru en að Skattrannsóknarstjóri hafi haft öll gögn um afríkustarfsemina til rannsóknar áður, eftir húsleit frá 2012?“

Þetta segir Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks á RÚV, um skrif Morgunblaðsins um Samherjamálið. Helgi nefnir þó ekki hvaða blaðamann hann er að ræða um. Hann segir einnig að svar forstjóra Samherja meika engan sens“. Samkvæmt fréttaflutningi Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið þá áttu flest brotin sér stað eftir húsleit Seðlabanka Íslands í höfuðstöðvum Samherja árið 2012.

„Ég kann illa við að blasta því svona á þá félaga í aðdraganda aðventunnar, en tvennt gerir það að að verkum að spurningin og svar forstjórans, meika engan sens: Fyrst vegna þess að meginhluti atburðanna sem um er rætt gerast eftir 2012. En svo og ekki síst sú staðreynd að húsleitin fór fram á Íslandi og náði ekki til þeirra fyrirtækja sem um ræðir í Afríku. En það má vona. Vonandi er þessi árétting ekki of einhliða fyrir hinn ballanseraða forstjóra Samherja.“