Helga vala segir samkomulag um starfslok haraldar hafa vakið „furðu og reginhneykslan“

Í gær var greint frá því að samkomulag hefði náðst um starfslok Haraldar Johannessen sem gengt hefur starfi ríkislögreglustjóra í tuttugu og tvö ár. Samkvæmt starfslokasamningi verður Haraldur ráðgjafi ráðherra næstu þrjá mánuði og heldur hann að því loknu óskertum launum sínum í tvö ár.

Á Alþingi í dag spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra út í starfslokasamning Haralds. „Samkomulag sem hefur vakið furðu og jafnvel reginhneykslan um samfélagið,“ segir á vef RÚV sem greindi frá.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata spurði hvers vegna ekki hefði verið beðið um skýrslu Ríkisendurskoðunar áður en tilkynnt hafði verið um fyrirhugaðar breytingar.

Samkomulagið fordæmalaust

Helga sagði samkomulagið fordæmalaust og furðaði sig á því að það hefði verið gert við mann sem allir nema einn lögreglustjórar landsins hefðu lýst vantrausti sínu á. Spurði hún ráðherra hvort hún teldi framtíðarskipulag löggæslu landsins eiga að vera leidda af Harald. Þá velti hún því fyrir sér hvort meðalhófs og jafnræðis hefði verið gætt þegar samþykkt var nærri 40 milljóna króna útgjöld frá skattgreiðendum til handa honum.

„Það er auðvitað umdeilanlegt að gera starfslokasamning og það er ekki bæði hægt að hafa mjög ströng lög um opinbera starfsmenn og enga heimild til starfslokasamninga. Ég tel þó klárlega forsendur til að ganga frá starfslokum við Harald sem óskaði eftir því og við komumst að þessu samkomulagi með þessum hætti,“ segir Áslaug Arna í svari sínu og tekur fram að slíkir samningar ættu að vera undantekning en ekki regla.

Þá sagðist hún sjálf myndu leiða stefnumótunarvinnuna og að Haraldur taki að sér sérstök verkefni innan ráðuneytisins. Hún telji mikilvægt að nýta áfram þá reynslu sem til sé í kerfinu. Einnig sagði Áslaug að meðal hófs og jafnræðis hefði verið gætt að hennar mati.

„[Þ]annig að það er verið að senda skýrt fordæmi inn í þær samningaviðræður,“ spyr Helga Vala þá og vísar til þess að um áramót þurfi fleiri embættismenn að hverfa frá störfum og að almennt séð hafi verið miðað við 12 mánaða rétt embættismanna.

Samningurinn rétt skref

Áslaug Arna sagði að samningurinn hafi verið rétt skref og ekki hefði verið til hagsbóta fyrir lögregluna að leggja embætti ríkislögreglustjóra niður.

„Við erum með mann sem var skipaður aftur í febrúar 2018 og á því mikið eftir af sínum tíma. Hann hefur gríðarlega langan starfsaldur og þegar lagaramminn er þessi og samningur um starfslok embættismanns er á grundvelli lagaramma sem tryggir embættismönnum mjög sterka réttarstöðu tel ég að þessi samningur hafi verið rétta skrefið og er ánægð með niðurstöðuna.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata sagði samninginn stórfurðulegan

„[O]g sagan er sú að hann hafi sagt upp. Maður skilur að uppsagnarfrestur sé greiddur þegar viðkomandi er sagt upp sem er skipaður til ákveðins tíma en ef ríkislögreglustjóri sagði sjálfur upp þá finnst mér skrýtið að hann fái tveggja ára laun og ofan á það sérverkefni í lögreglumálum í þrjá mánuði í viðbót sem mér finnst ekki hafa verið skilgreint mjög vel,“ sagði Helgi.

Velti Helgi því einnig fyrir sér hvort verkefnin sem Haraldur komi til með að vinna stofni trúverðugleika þeirra í hættu í ljósi vantraustsyfirlýsinga gegn honum.

Áslaug sagði mikilvægt þegar fólk setji sig inn í svona mál að leita sér ýmiskonar ráðgjafar og að heyra allar hliðar málsins. Haraldur hafi viðamikla reynslu og að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi ekki séð neitt því til fyrirstöðu að nýta þekkingu Haralds á lögreglunni. Einnig sagði Áslaug að Ríkislögreglustjóri hefði ekki sagt stöðu sinni lausri heldur komið að máli við hana um möguleg starfslok og starfslokasamning.

Spurningu Helga um það hvers vegna tilkynnt hefði verið um fyrirhugaðar breytingar áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar liggi fyrir svaraði Áslaug því að hún vonaðist til að fá skýrsluna upp úr áramótum. Þá sagði hún að fljótlega eftir að hún tók við embætti dómsmálaráðherra hefði henni orðið ljóst að rót vandans væri samskiptaleysi og samráðsleysi milli ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra. Fyrirhugað lögregluráð muni ekki koma í veg fyrir aðrar breytingar sem gæti þurft að gera í kjölfar skýrslunnar.