Hannes hólmstein: „mér finnst þessi hatursherferð gegn þorsteini má afar ógeðfelld“ - mikil umræða skapaðist vegna ummælanna

Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að hatursherferð sé í gangi gegn Þorsteini Má Baldvinssyni, fyrrverandi forstjóra Samherja, og þykir honum sú herferð ógeðfelld. Hannes segir að Þorsteinn Már sé skapandi dugnaðarforkur.

„Mér finnst þessi hatursherferð gegn Þorsteini Má afar ógeðfelld. Ég skal ekkert segja um þetta nýja mál, enda bíður það væntanlega rannsóknar og snýst, að því er mér virðist, aðallega um þá spillingu, sem hlýst af pólitískri úthlutun fiskveiðikvóta í Afríku. Um hitt verður ekki deilt, að Þorsteinn Már er skapandi dugnaðarforkur, sem hefur rekið fyrirtæki sitt vel og veitt fjölda manns atvinnu.“

Mikil umræða skapaðist á Facebook síðu Hannesar vegna ummæla hans. Meðal þeirra sem tók þátt í henni var Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður. Sagði Sveinn Andri að brotaþolinn í Samherjamálinu væri almenningur í Namibíu og að orð Hannesar minni hann á eldgamalt sakamál þar sem gerandinn var sýknaður þar sem brotaþolinn hafi verið glannalega klædd.

„Merkileg afvegaleiðing að tala um að málið snúist „aðallega um þá spillingu, sem hlýst af pólitískri úthlutun fiskveiðikvóta í Afríku.\" Málið snýst um ætlaðar mútugreiðslur stjórnenda Samherja til namibískra vitorðsmanna í því skyni að fá úthlutað aflaheimildum. Brotaþoli er almenningur í Namibíu. Þessi útlegging minnir á eldgamalt sakamál sem gjarnan er tekið sem dæmi í refsiréttarkennslu um úrelt viðhorf þegar það leiddi til sýknu í kynferðisbrotamáli að brotaþoli var „glannalega klædd\".“

Hannes svaraði Svein Andra og sagði að það væri kjarni málsins að úthlutunarvald leiði menn í freistni. 

„Þetta er einmitt kjarni málsins, sýnist mér. Pólitískt úthlutunarvald leiðir menn í freistni! (Og þetta á líka við í smærri dæmum, til dæmis þegar dómarar úthluta arðbærum verkefnum svo sem þrotabúum til lögmanna, sem smjaðra fyrir þeim.)“