Gunnar karlsson er látinn: „enginn hefur sinnt því jafnvel og hann að gefa þjóðinni sögu“

Gunnar Karlsson fæddist í Efstadal í Laugardalshreppi í Árnessýslu 26. september 1939. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 28. október 2019. Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur. Dætur Gunnars og Silju eru þær Sif og Sigþrúður Gunnarsdætur.

Gunnar var stundakennari í sagnfræði við HÍ 1970-74, kenndi Norðurlandasögu við University College í London 1974-76, var lektor í sagnfræði við HÍ 1976- 80 og prófessor þar 1980-2009. Gunnar sat í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands 1973-74 og 1976-78 og var formaður félagsins 1988-90, sat í stjórn Sögufélags 1978-82, var forseti heimspekideildar HÍ 1981-83 og 1991 og sat í Forskningspolitisk Råd á vegum norrænu ráðherranefndarinnar 1989-91. Hann skrifaði námsbækur í sögu fyrir grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, einnig yfirlitsrit um Íslandssögu fyrir almenning, meðal annars verkið Iceland’s 1100 Years fyrir útlenda Íslandsáhugamenn. Það kom út bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar undir titlinum The History of Iceland. Þegar á leið sneri Gunnar sér einkum að íslenskri miðaldasögu og skrifaði meðal annars bækur um goðavald (Goðamenning).

\"\"

Margir minnast Gunnars sem stórgáfaðs og ljúfs manns sem sinnti starfi sínu sem sagnfræðingur af alúð allt fram til síðustu stundar.

„Fræðimanninn og kennarann Gunnar Karlsson þekkja flestir enda vandfundinn sá einstaklingur sem hefur haft meiri áhrif á söguskoðun þjóðarinnar undanfarna áratugi. Það eru aðrir betur til þess fallnir að greina frá því merka ævistarfi sem eftir hann liggur á því sviði. Starfi sem hann sinnti af alúð allt fram undir það síðasta komandi kynslóðum til mikils gagns,“ skrifar Sighvatur Arnmundsson um Gunnar, tengdafaðir sinn.

„Við kynntumst Gunnari Karlssyni sagnfræðingi haustið 1970, fljótlega eftir að við komum að norðan, nýstúdentar, á leið í Háskóla Íslands. Við vorum feimin við hann því Silja, fóstra Dagnýjar og vinkona, hafði sagt henni að maðurinn væri stórgáfaður og það staðfestu allir. Við sannfærðumst fljótt um að það væri rétt því við settumst um sinn á skólabekk hjá Gunnari í sagnfræðinni en vissum þá ekki enn hvað við vildum og enduðum að lokum í íslenskunámi. Þó að rutl væri á okkur í námsvali gilti ekki hið sama um vinavalið og böndin milli okkar og Silju og Gunnars styrktust jafnt og þétt.

Virðing okkar fyrir Gunnari, þessum hávaxna og myndarlega bóndasyni frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, dýpkaði ár frá ári og við hana bættist væntumþykja því að Gunnar var afskaplega hlýr og raungóður maður. Hann var dýrmætur í lífi vina sinna og fjölskyldu og ævistarf hans hornsteinn í íslenskri sagnfræði og hugvísindum. Honum var í mun að kennslubækur um sögu lands og þjóðar væru endurskrifaðar reglulega og miðluðu ferskum skilningi, nýjum viðfangsefnum og viðhorfum til fortíðarinnar,“ skrifar vinafólk Gunnars og Silju, þau Dagný Kristjánsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson er þau minnast Gunnars.

„Gunnar Karlsson kallar Ísland leikvöll Íslandssögunnar í einni af sínum síðustu bókum. Á þeim leikvelli býr það fólk sem hann gerði að viðfangsefnum, gerði að persónum og leikendum á því stóra sviði sem saga Íslands er. Enginn hefur sinnt því jafnvel og hann „að gefa þjóðinni sögu,“ svo notuð séu hans eigin orð,“ skrifar Bragi Guðmundsson fyrrum nemandi og vinur Gunnars.

Útför Gunnars verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 4. nóvember 2019, klukkan 12.