Gunnar eydal er látinn - dagur b: „það var lærdómsríkt og verðmætt að eiga þess kost að vinna með gunnari“

Gunnar Eydal, fyrrverandi skrifstofustjóri borgarstjórnar er látinn en hann féll frá þann 15. júlí síðastliðinn. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar minnist Gunnars í pistli sem hann birtir á Facebook.

Gunnar fæddist á Akureyri og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1964 og lögfræðiprófi frá HÍ 1971, öðlaðist hdl.-réttindi 1974 og hrl.-réttindi 1992. Gunnar var fulltrúi bæjarfógetans á Akureyri 1971 og lögfræðingur hjá BSRB á árunum 1972 til 76. Þá var Gunnar framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna 1976-79 og starfaði sem skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur frá 1979 til 2008.

\"GunnarGunnar stundaði einnig kennslu við MH og HÍ og var formaður Barnaverndarráðs íslands á árunum 1979 til 1982. Einnig sat hann í ýmsum nefndum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Gunnar óskaði eftir því þann 10. Janúar árið 2008 að vera leystur frá störfum. Var Gunnari þá færðar innilegar þakkir fyrir langt og farsælt starf sem skrifstofustjóri. Gunnar sagði við það tilefni að hann væri ekki að hverfa á braut og myndi sinna ýmsum sérverkefnum sem tengdust skrifstofu borgarstjórnar. Þá skrifaði Gunnar fræðirit og endurminningar en albræður hans voru Ingimar og Finnur Eydal en þeir bræður stofnuðu eina vinsælustu hljómsveit landsins. Í endurminningum sínum um þau ár skrifaði Gunnar:

„Á þessum árum hóf Óðinn Valdimarsson að syngja með hljómsveitinni og varð fljótt vinsæll hjá þjóðinni. Ásamt því að syngja hóf Óðinn prentnám, en vinna í prentsmiðjunni hófst kl. 7:15. Það hentaði Óðni ákaflega illa, enda var hann oft að skemmta langt fram eftir kvöldi. Var þá gerður samningur við Óðin um að hann mætti mæta til vinnu kl. 9.00. Gekk það í fyrstu vel, en fljótlega kom að því að honum tókst ekki að mæta fyrr en kl. 11.00. Hann gaf þá skýringu að hann hefði verið í sjötugsafmæli frænku sinnar kvöldið áður. Verkstjóranum fannst þessi skýring ósennileg enda var ekki vitað um neitt sjötugsafmæli daginn áður og spurði hvort hann hefði enga aðra skýringu. „Æ, mér datt bara ekkert betra í hug,“ svaraði Óðinn sem varð ekki langlífur í prentverkinu.

 Einhverju sinni vorum við sem oftar norður á Akureyri um jól og áramót. Kvöldið fyrir gamlársdag fékk ég heimsókn góðra vina og við ákváðum að taka smá forskot á áramótin og lyfta glösum. Fór þetta þannig að áramótavínið kláraðist. Gamlársdagur var á sunnudegi og útlit var fyrir að við yrðum að sitja þurrbrjósta um áramótin. Þá datt mér í hug að athuga hvort Ingimar bróðir minn kynni að eiga einhverja lögg. Þannig var í spilamennskunni að það kom fyrir að kúnnar sem voru að skemmta sér vildu launa honum með því að senda honum dýrindis vín upp á senu. Ingimar var stakur bindindismaður og því söfnuðust þessar gjafir upp hjá honum. Ég leita sem sagt til Ingimars og jú hann átti lögg eins og sagt var. Hann reyndist eiga flösku af dýrindis koníaki, en um einn þriðja vantaði á að flaskan væri full. Hann sagði að það stafaði af því að hann væri vanur að þvo málningarpensla upp úr koníakinu. Ég þáði að fá að láni það sem eftir var. Þegar ég fór á ég að hafa sagt „Svo skila ég þessu í formi terpentínu til að hreinsa penslana.\"

Ég get fullyrt að hljómsveit bræðra minna ásamt Helenu Eyjólfsdóttur, Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Þorvaldi Halldórssyni var eitt það besta á þessu sviði tónlistar á þeim tíma. Báðir bræður mínir gerðu tónlist og kennslu að ævistarfi. Ingimar lést árið 1992, Þá 56 ára gamall, eftir baráttu við krabbamein. Finnur lést 1996, 56 ára gamall eftir langa sjúkdómslegu.“

Dagur B. Eggertsson minntist Gunnars í upphafi borgarráðsfundar í morgun. Dagur segir:

\"\"„Gunnar var farsæll starfsmaður Reykjavíkurborgar áratugum saman og öllum eftirminnilegur sem með honum störfuðu. Hann var einn helsti sérfræðingur landsins í sveitarstjórnarrétti og var lifandi uppflettirit í smáu og stóru.

Gunnar hafði ríka kímnigáfu og var launkíminn í daglegum störfum. Hann taldi sjálfan sig af gamla skólanum, með nokkru stolt, og viðeigandi glotti.

Yfirgripsmikil þekking hans í bland við hæfilega íhaldssemi reyndist oft mikill kostur á vettvangi þar sem formfesta og fyrirsjáanleiki er mikilvægur. Og til að undirstrika reynsluna þá má geta þess að á farsælum starfsferli sínum sat Gunnar alls 1.600 borgarráðsfundi og 570 borgarstjórnarfundi, auk þess að vinna með 9 borgarstjórum og 12 forsetum borgarstjórnar! Það var lærdómsríkt og verðmætt að eiga þess kost að vinna með Gunnari.

Ég votta Ásgerði Ragnarsdóttur eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu mína innilegustu samúð. Blessuð sé minning Gunnars Eydal.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi borgarstjóri segir:

„Átti gott samstarf við Gunnar bæði sem borgarfulltrúi í minnihluta í 6 ár og sem borgarstjóri í tæp 9 ár. Hann var réttsýnn og vandaður í sínum embættisfærslum og maður sátta. Það var gott að hafa slíkan mann í forystu á borgarskrifstofunum. Ég sendi Ásgerði og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.“