Gunnar bragi hugsar hlýtt til samherja og biður fólk um að gleyma ekki börnum starfsmanna: segir stundina og rúv vera á eftir „klikk“

„Ég hugsa til starfs­manna Sam­herja sem horfa nú á stríðsfyr­ir­sagn­ir um fyr­ir­tækið og stjórn­end­ur þess. Sér­stakt sam­band virðist milli Rík­is­út­varps­ins og Stund­ar­inn­ar enda er oft sagt að lík­ur sæki lík­an heim. Hvort eitt­hvað er til í þeim ásök­un­um sem komið hafa fram verður framtíðin að leiða í ljós og hugs­an­lega dóm­stól­ar. Sem bet­ur fer dæma ekki fjöl­miðlar eða þeir sem hrópa á torg­um í máli þessu held­ur dóm­stól­ar, gangi málið til þeirra.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra í pistli í Morgunblaðinu. Í vikunni var sagt í Kveik og á Stundinni að Samherji stundaði stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Afríkuríkinu Namibíu til þess að ná undir sig fiskveiðikvóta. Gunnar Bragi gagnrýnir fjölmiðla og þá helst RÚV og Stundina og sakar þá miðla um að matreiða fréttamál í sameiningu eftir eigin höfði til að láta hlutina líta út fyrir að vera verri. Gunnar Bragi segir:

„Ef til vill telja ein­hverj­ir fjöl­miðlar það skyldu sína að mat­reiða frétt­ir í sem mest­um æsifrétta­stíl ef heild­ar­mynd­in er ekki nógu hneyksl­an­leg. Þá er ekki spáð í neitt annað en áhorfstöl­ur, lest­ur, flettingar og „klikk“ á vefsíðum.“

Gunnar Bragi víkur einnig talinu að fjármögnun fjölmiðla og hvað ríkið hyggst leggja til. Flokkur Gunnars Braga, Miðflokkurinn, lagði fram tillögu þess efnið að hætt yrði að ríkisvæða fjölmiðla.

Þá segir Gunnar Bragi að Samherji sé eitt öflugasta fyrirtæki landsins og segir slæmt að það sé sakað um vafasama viðskiptahætti. Gunnar Bragi segir einnig:

„Þeir og aðrir sem að fyr­ir­tæk­inu standa eða starfa hjá því eiga fjöl­skyld­ur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjöl­skyldufaðir­inn eða móðirin bland­ast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifrétta­stíln­um. Æsing­ur fjöl­miðils­ins til að ná at­hygl­inni er stund­um svo mik­ill að annað skipt­ir ekki máli. At­hygliskeppn­in er eins og aur­skriða sem engu eir­ir og síst sann­leik­an­um sem kannski kem­ur í ljós seint og um síðir.“