Gunnar andrés er látinn: „við áttum langa samleið bæði vináttu og viðskipta sem ekki bar skugga á“

Gunnar Andrés Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri, fæddist 23. maí 1951 í Reykjavík. Hann andaðist á heimili sínu 10. september. Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Vigdís Þórarinsdóttir. þau giftust 31. desember 1976 og eignuðust þrjú börn. Gunnar Andrés var forstjóri Fóðurblöndunar, Kornax og rak síðar hrossarækt. Var Gunnar Andrés áberandi í viðskiptalífinu á árum áður. Greint er frá andláti Gunnars í Morgunblaðinu en hann var jarðsunginn í dag.

\"\"Gunnar var alinn upp í Vogunum og gekk í Vogaskóla. Hann fór eitt ár til Bretlands eftir grunnskólanám að læra ensku, hóf svo störf í Flugturninum í Reykjavík og byrjaði að læra flugumferðarstjórn. Hann keypti Ásmundarstaði í Ásahreppi ásamt bræðrum sínum árið 1969 og ráku þeir þarsvína-, eggja- og kjúklingabú til ársins 1986.

Þeir bræður keyptu Fóðurblönduna í Reykjavík 1984, settu hana á markað 1997 og rak Gunnar Fóðurblönduna til ársins 2000 þegar hún var að fullu seld.

Þeir Garðar stofnuðu jafnframt Kornax ásamt sænskum bræðrum árið 1986 og seldu þeir Kornax samhliða því er þeir seldu Fóðurblönduna.

Eftir það kom hann að fjárfestingum, stofnun og rekstri ýmissa fyrirtækja ásamt fjárfestingum í fasteignum og vann hann við rekstur þeirra allt til síðasta dags.

Þau Gunnar og Vigdís keyptu Árbæ í Holtum 1978 og fjölskyldan rekur þar hrossa-, sauðfjár- og trjárækt. Gunnar var formaður Veiðifélags Ytri Rangár og Vesturblakka Hólsár til fjölda ára og lét af störfum þar nú í ágúst. Hann sat í stjórn ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka og var virkur í Sjálfstæðisflokknum á fyrri hluta ævinnar. Hann var framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna og Fjórðungsmóts hestamanna.

Minnist vinar

\"\"Óskar Magnús­son, rithöfundur, bóndi, varamaður í stjórn Samherja, fyrr­um for­stjóri TM, Vodafone, út­gef­andi Morg­un­blaðsins og einn af eigendum Kerfélagsins segir í minningargrein um Gunnar Andrés:

„Nú hefur kaldur krapi heilsubrests lokið lífsgöngu vinar míns Gunnars A. Jóhannssonar. Í æsku vorum við villingar í Vogunum og ekki alltaf til fyrirmyndar en við kynntumst fyrst að marki síðar á lífsleið inni.

Gunnar var ekki skinnsléttur skólasetumaður. Hann hófst til vegs á eigin hönd af ötulum vilja án mikillar skólagöngu; brautryðjandi á mörgum sviðum, bóndi, forstjóri, hestamaður og heimsmaður.

Á árunum í Olís, með öðrum vini, Óla Kr. Sigurðssyni, varð vinátta okkar traust og samferðin drjúg þegar nepjan blés í bönkunum og heillafylgjan brást á árbakka í Borgarfirði. Komu þá vel í ljós kostir Gunna Jó.

Ekki var hann gjarn til geðbrigða en úrræðagóður, lundlipur og djarfur og rausnarlegur þegar á reyndi. Ævinlega heill vinur.

Við áttum langa samleið bæði vináttu og viðskipta sem ekki bar skugga á. Nú þegar leiðir skilja er gott er að geta séð Gunnar fyrir sér, grannvaxinn, söguglaðan, með glettnisglampa í augum, bros á vör og stór endalaus áform sem gjarnan gengu eftir.“