Guðni: „hreinskilni ræður, án þess að fólk sé að velta sér upp úr því sem miður fór“

„Okkur Elizu hlotnaðist sá heiður í gærkvöld að sitja lokasýningu söngleiksins um Ellý Vilhjálms. Við tökum undir þakkir tugþúsunda Íslendinga fyrir frábæra frammistöðu allra þeirra sem að viðburðinum hafa komið. Á engan er hallað þótt ég þakki Ragga Bjarna sérstaklega fyrir hans þátt og þá ræktarsemi sem hann hefur sýnt minningu Ellýjar með því að mæta á flestar hinna 220 sýninga sem verið hafa á fjölum Borgarleikhússins. Í gær lét hann sig ekki vanta þótt hann sé að jafna sig eftir erfiða læknisaðgerð. Takk Raggi!“

Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson í færslu á Facebook. Guðni var eins og áður segir staddur lokasýningu söngleiksins um Ellý Vilhjálms en söngleikurinn hefur slegið öll met. Guðni Th segir:

„Söngleikurinn Ellý er afar vel gerður. Hægðarleikur hefði verið að semja laufléttan brag um fróðlegt lífshlaup og láta andbyr og erfiðleika liggja milli hluta. Það var ekki gert. Hreinskilni ræður, án þess að fólk sé að velta sér upp úr því sem miður fór, og verkið verður sterkara fyrir vikið. Svona á að segja frá liðinni tíð.

Nú er ég ekki af þeirri kynslóð sem kynntist Ellý þegar hún steig fram á sjónarsviðið og sló í gegn. En lög með henni eru áfram leikin og varla er hægt að halda jól án plötunnar með henni og Vilhjálmi bróður hennar. Ég ítreka þakkir okkar hjóna og heillaóskir til fólksins sem stóð að þessum flotta söngleik. Og blessuð sé minning Ellýjar Vilhjálms.“

Þá segir Guðni Th. að lokum:

„Myndin að neðan er af sjaldgæfum viðburði, og sem betur fer án hljóðs að því er mig varðar: Við Raggi Bjarna að taka saman „Vert‘ ekki að horfa svona alltaf á mig“ á góðum fundi fyrir nokkrum árum. Gott ef Þorgeir Ástvalds lék ekki undir. Ég skora á hann og annað gott útvarpsfólk að flytja vel valin lög með Ellý og Ragga núna í vikunni þegar við fögnum 75 ára afmæli lýðveldisins.“

\"\"