Gengu í skrokk á manni í grafarvoginum

Mikið var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en um 70 mál voru skráð á málaskrá.

Þó nokkrar tilkynningar bárust um minniháttar umferðaróhöpp en rúmlega eitt í nótt barst lögreglu tilkynning um bílveltu í hverfi 111. Ökumaðurinn var talinn fastur í bifreiðinni en komst út með smá aðstoð. Frekari upplýsingar um málið liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Þá var einnig nokkuð um aðila í annarlegu ástandi sem lögreglan sinnti og hjálpaði þeim að komast leiðar sinnar en einn aðili var vistaður í fangageymslu lögreglunnar uns vímuástandið rennur af honum. Sá hafði verið í annarlegu ástandi að öskra úti á götu í hverfi 104 og fékk lögreglan tvær tilkynningar um ónæði af honum.

Klukkan 23:20 var bensínsprengju kastað í að kyrrstæðri mannlausri bifreið í hverfi 104. Engan sakaði og gerendur voru á brott er lögreglu bar að. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni.

Lögreglan fékk tilkynningu um reyk sem lagði úr Hvalfjarðargöngunum klukkan rúmlega 17 í gær. Í ljós kom að reykurinn kom frá pústkerfi bilaðrar bifreiðar og var engin hætta á ferð. Því var ekki talin þörf á aðstoð.  

Rúmlega 21 leitið í gærkvöldi var tilkynnt um að aðilar hefðu gengið í skrokk á manni í hverfi 112. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni.