Garðar: „er þetta leiðrétting?“ - fékk 98 þúsund krónur í leiðréttingu en heldur bara tvö þúsund krónum.

Í maí síðastliðinn ákvað Alþingi að lækka skerðingar örorkulífeyris frá TR vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum úr 100% í 65%. Lögin voru afturvirk frá síðustu áramótum. Þessi leiðrétting var greidd út í ágúst. Fengu öryrkjar upp undir 200.000 kr. endurgreiddar eftir skatt vegna þessara breytinga í ágúst. Núna hefur stór hluti þeirra fengið mikla skerðingu í bótakerfinu annars staðar vegna þessarar endurgreiðslu og leiðréttingar, sérstaklega þá í gegnum húsaleigubótakerfið.

Garðar Baldvinsson var einn þeirra sem fékk leiðréttingu vegna lækkunar á skerðingarnarhlutfallinu. Garðar segir að vegna skerðinga á húsaleigubótum til hans haldi hann eingöngu um helmingnum af leiðréttingunni.

„Ég fékk t.d. 166.000 kr. eftir skatta við leiðréttinguna í ágúst og húsaleigubætur mínar, frá ríki og borg, lækka núna samtals um 29.000 kr. á mánuði næstu þrjá mánuði eða um kr. 87.000 í heild. Þannig greiði ég til baka rúmlega helming af því sem ríkið borgaði mér í ágúst.“

Garðar segir einnig að félagi sinn hafi verið skertur enn meira en hann. Af þeim 98 þúsund krónum sem hann fékk í leiðréttingu, heldur hann eingöngu 2 þúsund krónum vegna skerðinga á húsaleigubótum.

„Félagi minn fékk 98.000 kr. í endurgreiðslu og húsaleigubætur hans lækka samtals um 32.000 á mánuði næstu þrjá mánuði eða í heild um 96.000 krónur, Hann heldur sum sé eftir heilum 2.000 krónum af þessari endurgreiðslu ríkisins. Eða 650 krónum á mánuði. Ég veit ekki um neinn annan hóp sem greiðir þannig frá 50% og upp í 98% af tekjuauka sínum beint til baka í einhverju formi.“

„Er þetta leiðrétting ? Er þetta leiðrétting á kjörum félaga míns að fá 98.000 krónur og borga til baka 96.000 krónur? Nei ég held ekki,\" segir Garðar.