Freyr er fatlaður og var rekinn – má ekki koma aftur: „hvaða skóli vísar fötluðu barni úr skóla á öðrum degi?“

Fjölbrautaskólinn við Ármúla tók þá ákvörðun að reka Frey Vilmundarson úr skólanum eftir aðeins tvo daga í námi. Freyr var í sérdeild skólans sem er fyrir fötluð börn. Í samtali við Fréttablaðið segja foreldrar Freys að þau séu svekkt og furða sig á ákvörðun skólans.

Freyr var með fylgdarmann fyrsta daginn. Síðari daginn var ákveðið að hann þyrfti ekki á fylgd að halda. Að sögn foreldra missti Freyr stjórn á sér og telja foreldrarnir að hann hafi verið óöruggur. Hann henti hlutum, sló til starfsmanns og lét ófriðlega. Í kjölfarið var foreldrunum tilkynnt um að Freyr væri ekki lengur velkominn í skólann. Eru foreldrarnir afar ósáttir við að ekki hafi verið leitað lausna. Þau höfðu heyrt að þetta væri ein besta sérdeild landsins með afar hæfu fólki.

Foreldrarnir tjá sig einnig á Facebook um brottreksturinn. Þeir segja þau:

„Fyrstu viðbrögð skólans og við eru að tala um sérdeild fyrir fötluð börn eru að reka hann úr skólanum. Ástæðan er að deildin henti honum ekki og að börnin þar séu svo viðkvæm. Þar er verið að tala um í mörgum tilfellum sömu börnin og hann hefur verið með í Öskjuhlíðarskóla í tíu ár.“

Móðir Freys viðurkennir að foreldrarnir hafi gert mistök með því að senda hann einan í skólann þann daginn en telur alltof langt gengið að vísa drengnum úr skóla og reka hann strax í stað þess að leita lausna. Foreldrarnir segja að lokum:

„Verð að segja að sérdeildin í Ármúla fellur gríðarlega í áliti hjá mér við svona framkomu. Hvaða skóli vísar fötluðu barni úr skóla á öðrum degi?“