Fréttablaðið og hringbraut sameinast

Helgi Magnússon og fleiri aðilar hafa keypt helmings eignarhlut 365 miðla í Torgi ehf. Torg er útgáfufélag Fréttablaðsins og starfrækir meðal annars vefmiðilinn frettabladid.is. Fréttablaðið er útbreiddasta blað landsins, prentað í tæplega 80.000 eintökum sex sinnum í viku og nýtur vefurinn frettabladid.is sífellt aukinna vinsælda. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Þar segir enn fremur:

Helgi keypti fyrr á þessu ári helmingshlut í Torgi. 365 miðlar hafa nú selt allt hlutafé sitt í félaginu. 365 miðlar eru í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur en hún hefur, ásamt eiginmanni sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, starfrækt fjölmiðla á Íslandi síðustu 16 ár, þar á meðal Stöð 2, Bylgjuna og vísir.is sem voru seldir til Sýnar í lok árs 2017.

Fyrirhugað er að sameina rekstur Torgs og Sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, þegar Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd hafa fjallað um samrunann, sem er háður samþykki þessara stofnanna.

Jafnframt hefur Ólöf Skaftadóttir látið af starfi ritstjóra en hún sagði starfi sínu lausu í lok ágúst. Hún hefur starfað hjá fyrirtækinu síðastliðin sjö ár. Henni eru þökkuð vel unnin störf. Jón Þórisson lögfræðingur hefur verið ráðinn ritstjóri og ábyrgðarmaður Fréttablaðsins við hlið Davíðs Stefánssonar og hefur Jón störf í dag.

Jóhanna Helga Viðarsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra hjá Torgi verður nú forstjóri og útgefandi Torgs. Fyrirhugað er að flytja starfsemi Hringbrautar á Hafnartorg þar sem ritstjórn Fréttablaðsins og frettabladid.is er til húsa. Fyrirhugað er að Guðmundur Örn Jóhannsson taki við starfi framkvæmdastjóra sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar sameinaðs fyrirtækis og Sigmundur Ernir Rúnarsson verði áfram sjónvarpsstjóri.

Ætlunin er að eigendur Hringbrautar leggi fyrirtæki sitt inn í Torg og eignist hlutabréf í félaginu. Það eru þeir Sigurður Arngrímsson, gegnum félag sitt Saffron, og Guðmundur Örn Jóhannsson. Aðrir hluthafar í sameinuðu félagi verða Jón Þórisson og Helgi Magnússon sem verður eigandi meirihluta hlutafjár og mun gegna formennsku í stjórn Torgs ehf.