Formaður vinnuhóps oecd gegn mútum um samherjamálið: „ég verð að segja að þetta eru trúverðugar ásakanir“

Samherjaskjölin verða prófsteinn á getu íslenskra lögregluyfirvalda, segir Drago Cos ,formaður vinnuhóps OECD gegn mútum. Hann segir að stofnunin muni fylgjast náið með rannsókn íslenskra yfirvalda á Samherjamálinu. Formleg lögreglurannsókn er nú þegar hafin, en hún hófst þegar Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi rekstrarstjóri Samherja í Namibíu, mætti í skýrslutöku hjá Héraðssaksóknara á þriðjudaginn í síðustu viku. 

Drago segir í samtali við RÚV að reynist yfir milljarðs greiðslur Samherja mútugreiðslur til embættismanna í Namibíu, sé það stórt mál á heimsvísu. Þá segir hann að ásakanir á hendur Samherja séu trúverðugar.

„Ég verð að segja að þetta eru trúverðugar ásakanir en samt aðeins ásakanir. Við verðum að sjá hvað gerist næst. Á alþjóðlegan mælikvarða telst þetta stórt mál. Tíu milljónir dollara eru háar mútur.“ 

Hann segir að OECD muni fylgjast náið með rannsókn íslenskra yfirvalda og vonist til að rannsóknin verði gert á skjótan og skilvirkan hátt.

„Ég hef þó haldið því fram í mörg ár að enginn sé ónæmur fyrir spillingu. Fyrir okkur hjá OECD verður það góður prófsteinn á íslensku lögregluna og ákæruvaldið að sjá hvernig þau taka á málinu. Við munum fylgjumst mjög vel með störfum þeirra. Ég vona einnig að stjórnvöld taki á málinu innan skynsamlegra tímamarka á skjótan og skilvirkan hátt.“

Þá segir hann að yfirlýsingar Samherja um að Jóhannes Stefánsson hafi staðið bak við þetta allt saman einn standist sjaldnast skoðun.

„Staðhæfingar um að einn maður á vegum fyrirtækisins beri ábyrgð á öllu standast sjaldan skoðun lengur.“