Fimm manna fjölskylda í banaslysinu á snæfellsnesvegi - yngsta dóttirinn alvarlega slösuð - söfnun sett af stað

Bílslysið sem varð á Snæfellsnesvegi síðdegis á laugardag og nærri bænum Gröf við Kleifá á sunnanverðu Snæfellsnesi var eins og áður hefur verið greint frá banaslys.

Hinn sautján ára gamli Zachary Zabatta lést í slysinu en um fimm manna fjölskyldu var að ræða. Þá hefur einnig verið greint frá því að yngsta dóttirin sé alvarlega slösuð.

Hrint hefur verið af stað söfnun fyrir fjölskylduna sem er frá bandaríkjunum og greindi Vísir fyrst frá því í morgun. Söfnunin fer fram á GoFundMe síðu og var það erlendi vefurinn Patch.com sem sagði frá henni.

Fjölskyldan var í fríi á Íslandi þegar slysið varð og samkvæmt söfnunarsíðunni eru Zabatta hjónin ásamt dætrum sínum enn á sjúkrahúsi og óljóst er hvenær þau fái að fara heim.

Söfnunin var sett af stað til þess að standa straum af kostnaði vegna slyssins og þegar hafa safnast um áttatíu þúsund Bandaríkjadalir eða í kringum tíu milljónir íslenskra króna.