Þungaða konan neydd í 18 tíma ferðalag: hér er hún stödd núna

Ferðalag albönsku móðurinnar, sem er komin um 36 vikur á leið, tekur um 18 klukkutíma. Hringbraut fjallaði ítarlega um málið í dag.

Ferðalag hennar hófst þegar henni og fjölskyldu hennar var fylgt af lögreglu úr húsnæði útlendingastofnunar í Hafnarfirði klukkan 05:00 í morgun.

Þaðan lá leið þeirra upp á Keflavíkurflugvöll og fóru þau í flug til Berlínar klukkan 07:40 frá Keflavík. Lenti fjölskyldan svo í Berlín klukkan 11:00 að íslenskum tíma eftir rúmlega þriggja tíma flug. Þá var beðið þar eftir flugi til Vínar í Austurríki, en ekki er vitað hvenær þau yfirgáfu flugvöllinn í Berlín. Flugið frá Berlín til Vínar tekur einn og hálfan klukkutíma.

Klukkan 20:15 að íslenskum tíma fóru þau svo í flug frá Vín til Tiriana í Albaníu og er áætlað að þau lendi um 23:00 að íslenskum staðartíma.

Alls er um að ræða yfir 7 klukkutíma sem konan og fjölskylda hennar eyddu í þremur mismunandi flugvélum. 

Eins og komið hefur fram mælti læknir á fæðingardeild Landspítalans gegn því að konan yrði flutt af landi brott vegna ástands hennar. Taldi lögregla og útlendingastofnun, þrátt fyrir vottorðið frá fæðingardeild Landsspítalans, að konan væri fullfær um að leggja í yfir 18 klukkutíma langt ferðalag.