Einar spáir í sumarveðrið: hvað er nú til ráða? stefnir í sama sumar og í fyrra

Einar Sveinbjörnsson er einn af okkar virtustu veðurfræðingum. Hann skrifar oft áhugaverða og einnig skemmtilega pistla um veður á Facebook. Líkt og Egill Helgason bendir á á Eyjunni, þá eru nýjustu tíðindi Einars á þessum vettvangi langt í frá að vera ánægjuleg. Eftir að Einar rýndi í langtímaspár fyrir maí og júní lítur allt út fyrir að það verði með svipuðum hætti og síðasta sumar. Og hvernig var veðrið þá. Jú, það var sett rigningarmet fyrir sunnan. Einar byggir spá sína á þremur mismunandi veðurlíkönum en þó helst á túlkun Evrópsku reiknismiðstöðvarinnar.

Samkvæmt spánni, þá ef hún rætist, verður veðrið frameftir sumri svipað og í fyrra. Dapurt sunnan og suðvestanlands. Líkt og Egill Helgason bendir á, eftir gjaldþrot WOW air að erfiðara er að komast frá landinu en áður þar sem flugverð hefur hækkað. Þá segir Einar í sinni spá:

„Samkvæmt kortinu eru allt að 60-70% líkur á að hitinn verði yfir meðallagi norðan og austanlands. Ekki síst á hálendinu. Hins vegar eru 20-40% líkur á að hiti verði markvert undir meðallagi með suður- og suðvesturströndinni.“

Einar heldur áfram: „Að síðustu úrkoman. Hana er að jafnaði erfiðast að túlka í þessum spám. Samkvæmt kortinu eru 40-60% líkur á að úrkoma teljist markvert mikil (efri þriðjungur) um vestan- og norðvestanvert landið. Staðsetning frávikanna, auk þeirra sem koma fram í N-Noregi gætu bent til þessa að vindur af SV og V verði nokkuð tíður þessa mánuði á kostnað A- og NA-átta.“

Egill Helgason spyr hvað sé til ráða eftir þessi tíðindi: „Það er ekki beinlínis ódýrt að ferðast um Ísland heldur. Tjaldútilega í Atlavík eða Ásbyrgi?“