Ef þú ætlar að baka eitthvað í sólinni, þá stenst enginn þessa dásemd

Eygló Harðar matgæðingur og sælkeri er iðin við að galdra fram ómótstæðilega ljúffengar kræsingar alla daga og nýjasta dásemd sem hún er með er þessi Hindberja- og möndlukaka sem enginn stenst. Þessi er tilvalin með kaffinu í blíðvirðinu sem leikur við okkur þessa dagana. Við fengum Eygló til að gefa okkur uppskriftina og segja frá tilurð kökunnar.

„Mary Berry er einn af snillingum þessa heims þegar kemur að bakstri. Eflaust þekkja flestir hana í gegnum The Great British Bake Off. Uppáhaldsuppskriftin mín frá henni er eplakakan hennar þar sem hún blandar saman eplum og möndlum með þægindum í bakstri.“ Hér er slóðin á uppskriftina: http://www.maryberry.co.uk/recipes/baking/the-very-best-apple-dessert-cake?fbclid=IwAR1hDSEHTFZbpfohxqdzUvwxTTzYu-HcZuvxOcg2ywacQmZNruFC9oiwze0 

„Þótt maður ætti eflaust ekki að hreyfa við fullkomnun, þá skal viðurkennast að aðrir fjölskyldumeðlimir eru ekki alveg jafn hrifnir af eplum og ég í kökum. Hér er eplunum skipt út fyrir frosin hindber og kom ágætlega út, - hvarf allavega mjög hratt af kökudisknum.“

„Ég hef einnig prófað að setja fersk jarðaber með smá af hvítu súkkulaði á milli og nota vanilludropa í stað möndludropa. Get sannarlega mælt líka með því. Sérstaklega ef þú nærð í íslensk jarðaber, sem mér finnst yfirleitt meira sæt og bragðbetri.“

Hindberja- og möndlukaka
150 g smjör, bætt og kælt
225 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
225 g sykur
2 egg
½ tsk. möndludropar (má skipta út fyrir vanilludropa)
125 g hindber, voru frosin
2 msk. hrásykur

Smyrjið form með lausum botn. Hitið ofninn í 160°C. Smjörið brætt og kælt. Hveiti, lyftidufti, sykri, eggjum, möndludropum og smjörinu blandað saman í skál. Blandið vel saman, þarf eiginlega enga hrærivél fyrir þessa uppskrift. Hrærið deigið í 1 mínútu. Setjið helminginn af deiginu í botninn á forminu, deifið berjunum yfir, dreifið hrásykrinum (eða venjulegum sykri yfir berin) og setjið svo hinn helminginn yfir. Deigið er frekar klístrugt þannig að það er best að setja það á með skeið, tryggja að það nái vel saman yfir miðjuna á kökunni. Það er í fína þó það nái ekki alveg yfir berin því það dreifir úr sér í ofninum.

Bakað í klst og korter, eða þar til kakan er orðin gullin og prjónn er hreinn þegar honum er stungið í.

Að sjálfsögðu gott bæði með rjóma og ís, eða bara bæði með kökunnni. Eygló stefnir að því að prófa áfram aðra ávexti, eins og til dæmis ferskjur eða nektarínur.  Ef þú ætlar að baka eitthvað í sólinni næstu daga þá ættirðu að baka þessa köku. Finnst varla auðveldari uppskrift.