Dóttir glódísar fæddist fyrir tímann: „þarna var ég alveg viss um að hún væri dáin - þetta er reynsla sem ég óska engu foreldri að lenda í“

Glódís Ingólfsdóttir eignaðist sína fyrstu dóttur, Sóllilju, á þrítugustu og annarri viku meðgöngunnar. Fæddist Sóllilja því rúmlega átta vikum fyrir tímann og vóg aðeins átta merkur.

„Sóllilja fæddist 20. apríl árið 2015 en settur dagur var um miðjan júní. Meðgangan gekk frekar brösuglega hjá mér og fyrstu mánuðina ældi ég nánast alla daga og endaði á að taka inn póstafen eftir að hafa verið lögð inn á spítala 2x með vökva í æð,“ segir Glódís í einlægri færslu sinni á síðunni Mæður. Glódís gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um fæðingarsögu sína.

Ástand Glódísar versnaði hratt eftir greiningu

Þrátt fyrir mikil veikindi á meðgöngunni óx dóttir hennar vel og stóðst hún allar skoðanir lækna.

„Þegar ég var komin 32 vikur fór ég að taka eftir því að ég var komin með mikinn bjúg, sjóntruflanir og höfuðverk. Ég átti tíma í mæðravernd eftir helgi en ákvað samt að fara upp á fæðingardeildina á Akureyri (þar sem ég bý) á fimmtudegi og láta kíkja á mig. Blóðþrýstingurinn var mældur og hann var allt of hár. Þá var ég sett í rit og svo í sónar og læknir tilkynnti mér að ég væri komin með meðgöngueitrun.“

Læknirinn greindi Glódísi frá því að líklega þyrfti dóttir hennar að koma mun fyrr í heiminn heldur en til stóð og fékk hún í kjölfarið sterasprautur fyrir þroska þess.

Ástand Glódísar versnaði hratt og var ákveðið að senda hana suður með sjúkraflugi á laugardeginum, tveimur dögum eftir að meðgöngueitrunin greindist.

„Á sunnudeginum varð ég veikari og veikari með hverjum klukkutímanum og komin með hræðilega mikinn bjúg og svo slæman höfuðverk að mér varð óglatt. Um kvöldið þegar kærastinn minn var nýfarinn frá mér til að gista hjá ættingjum sínum þá komu læknar og kíktu á mig. Þeir ákváðu strax að fara með mig upp á fæðingardeild og þar var ég sett af stað.“

Mænudeyfingin mistókst

Glódís var orðin mjög veik og áhyggjur hennar hjálpuðu ekki til. Hún kastaði upp og skalf öll þegar hún hringdi í kærasta sinn og móður og bað þau að koma.

„Um miðnætti var mér gefin tafla til að setja mig af stað en á sama tíma var mér sagt að þetta gæti endað í keisara svo að ég mátti hvorki borða né drekka alla fæðinguna.“

Klukkan fjögur um nóttina voru hríðarnar orðnar sterkar og fékk Glódís mænudeyfingu.

„Læknirinn var mjög lengi að setja hana upp og ég var alveg að deyja á meðan. Loksins klárar hann og fer en aldrei minnka verkirnir heldur aukast þeir bara og aukast. Þá hafði mænudeyfingin mistekist og það þurfti að setja hana upp aftur.“

Fékk dóttir sína í fangið

Glódís notaði gas á lokasprettinum sem hjálpaði henni að anda djúpt og hafa stjórn á verkjunum. Klukkan 7:34 fæddist dóttir hennar svo í heiminn og þrátt fyrir að hún væri fyrirburi fékk Glódís hana í fangið í smá stund. Eftir að kærasti hennar hafði klippt á naflastrenginn fór dóttir þeirra upp á vöku.

\"\"

„Ég var orðin svo þyrst og skrælnuð í hálsinum að ég gat ekki hugsað um annað en vatn á þessum tímapunkti. Loksins mátti ég drekka og ég tilkynnti öllum á fæðingarstofunni það að þetta væri besta vatn sem ég hefði smakkað! Þar sem ég var mjög veik sofnaði ég strax og þetta allt var búið og vaknaði ekki aftur fyrr en seinnipartinn.“

Eftir fæðinguna þurfti Glódís að vera undir stöðugu eftirliti og svaf hún mikið. Á þriðjudeginum fékk hún aftur að halda á dóttur sinni sem þá var komin úr hitakassanum.

„Hún gat andað alveg sjálf og var ekki tengd við nein tæki nema súrefnismettunarmæli.“

Dóttir Glódísar braggaðist vel og var hún dugleg að drekka, fljótlega fengu þær mæðgur að fara heim.

„Það er rosalega erfitt að ætla að kíkja upp á spítala í smá tékk sem endar svo með því að þú færð ekki að koma heim aftur fyrr en barnið þitt sem átti að koma í júní er fætt!“

Var viss um að hún væri dáin

Glódís átti erfitt með sig eftir fæðinguna og var hún oft hrædd um dóttur sína.

„Þetta var erfiður tími fyrir mig og eftir á að hyggja er ég nokkuð viss um að ég hafi fengið fæðingarþunglyndi. Ég var mikið ein með hana og einangraði mig frá umheiminum enda dauðhrædd um að hún myndi smitast af öðru fólki og verða lífshættulega veik því hún var svo mikill fyrirburi.“

Fljótlega eftir heimkomu lenti Glódís í skelfilegu atviki sem hún telur að hafi verið ein af ástæðum þess að hún hræddist um líf dóttur sinnar eins mikið og hún gerði.

„Ég var ein heima með Sóllilju og var að gefa henni brjóst, ég satt upp í sófa með hana og fann svo að hún hættir að drekka og liggur bara kjurr. Vegna þess hvað hún var lítil þreyttist hún fljótt á að drekka og ég þurfti oft að ýta við henni til að fá hana til að drekka meira því hún sofnaði annars bara á brjóstinu. Ég fór því að reyna að ýta við henni en fékk engin viðbrögð, þá tók ég hana af brjóstinu og við mér blasti hræðilegasta sjón sem ég hef nokkurn tíma séð. Barnið mitt var líflaust í höndunum á mér, hún var blá í framan og meðvitundarlaus og þessi mynd er brennd inn í hausinn á mér og verður það örugglega að eilífu. Hún var svo ofboðslega lítil og viðkvæm, og þarna var ég alveg viss um að hún væri dáin.“

Reynsla sem hún óskar engu foreldri 

Glódís lyfti dóttur sinni upp sem var algjörlega máttlaus og andaði ekki. Hún reif upp símann og hringdi í neyðarlínuna.

„Á sama tíma og ég var í símanum að útskýra hvað var að fór ég með Sóllilju að opnum glugga, sló á bakið á henni og lét blása kaldan vind á hana. Hún byrjaði þá að hósta upp mjólk og fékk strax aftur eðlilegan lit. Hún var komin aftur með meðvitund og á sama tíma ruddust inn í íbúðina sjúkraflutningamenn, læknir og löggur. Ég stóð með hana í fanginu gjörsamlega út úr heiminum af skelfingu og fyrir utan íbúðina var sjúkrabíll, löggubíll og bráðalæknabíll allir með blikkandi ljós og sírenur.“

\"\"

Í kjölfarið fór Glódís með Sóllilju upp á spítala þar sem hún var rannsökuð.

„Það kom aldrei nákvæmlega í ljós hvað var að, en læknarnir telja að hún hafi einfaldlega gleymt að kyngja, sofnað með mjólk ofan í sér og hætt að anda. Það þarf svo rosalega lítið til hjá svona litlum fyrirburum, þau geta hreinlega bara gleymt að anda og þá þarf að ýta við þeim svo þau ranki við sér. Sem betur fer gerðist þetta bara einu sinni og Sóllilja er fullkomlega heilbrigð, en þetta er reynsla sem ég óska engu foreldri að lenda í.“

Færslu Glódísar má lesa í heild sinni á Mæður.com með því að ýta hér.