Dauði lýðræðisins og upprisa kerfisins

„Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýðræðið er hætt að virka sem skildi. Kerfið ræður.“ Þetta er tilvitnun í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins á flokkstjórnarfundi um síðustu helgi.

Samkvæmt frásögn Fréttablaðsins sagði formaðurinn að legið hefði fyrir frá upphafi að núverandi ríkisstjórn yrði kerfisstjórn. Síðan tók hann nokkur dæmi um háttsemi ríkisstjórnarflokkanna til að sýna fram á að kenning hans um dauða lýðræðisins og upprisu kerfisins stæðist.

Fyrsta dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Fyrsta dæmið sem formaðurinn nefnir er niðurstaða af vangaveltum hans um Sjálfstæðisflokkinn. Hún er sú að sá flokkur hafi tekið upp stefnu Samfylkingarinnar frá 2007. Rétt er að þessir tveir flokkar fóru í samstarf það ár en hafa í flestra augum vaxið frá hvor öðrum eftir það. En það var pólitísk ákvörðun Sjálfstæðisflokksins að færa sig frá miðjunni til hægri og Samfylkingarinnar að fara frá miðjunni til vinstri. Kerfið kom þar hvergi nærri.

Annað dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Annað dæmi formannsins snýr að VG.: „Ráðherrar þeirra virðast hafa frítt spil til að innleiða eigin áhugamál, hvort sem það er innleiðing á marxísku heilbrigðiskerfi eða tilraunir til að koma í veg fyrir framkvæmdir á Íslandi og auðvitað alveg sérstaklega á Vestfjörðum þar sem enginn má gera neitt.“

Það er talsvert til í þessari staðhæfingu. En hún bendir bara ekki til að kerfið hafi tekið völdin af ráðherrunum. Þvert á móti sýnast ráðherrar VG hafa nýtt sér það lýðræðislega umboð sem þeir hafa til að knýja fram stefnu sína með þegjandi stuðningi samstarfsflokkanna og án þess að kerfið fái rönd við reist.

Þriðja dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Þriðja dæmið er fullyrðing um að forsætisráðherra hafi fengið Sjálfstæðisflokkinn til að samþykkja lög um fóstureyðingar eftir hennar höfði. Um það voru víst eitthvað skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum. En þetta var ákvörðun sem tekin var af lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi. Kerfið kom þar hvergi nærri.

Fjórða dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Fjórða dæmið birtist í þeirri staðhæfingu að VG hafi fengið að endurskipuleggja ráðherralið Sjálfstæðisflokksins. Rétt mun vera að forsætisráðherra hafi knúið Sjálfstæðisflokkinn til að láta dómsmálaráðherra segja af sér. En það var ákvörðun tekin í krafti lýðræðislegs umboðs forsætisráðherra. Ekki verður séð að kerfið hafi komið þar við sögu.

Fimmta dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Fimmta dæmið sem formaðurinn tilgreinir er að Framsókn hafi snúist gegn eigin stefnumálum. Rétt er að þingmenn Framsóknar kúventu á Alþingi sameiginlegri ákvörðun þingflokks og miðstjórnar í orkupakkamálinu. Vera má að lýðræðislega kjörnir forystumenn samstarfsflokkanna hafi beitt þá þrýstingi. En þeir eru ekki kerfið, eða hvað?

Sjötta dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Sjötta dæmi formannsins er fullyrðing um að bændur séu eina stéttin sem stjórnvöld stefni að því að fái lækkandi tekjur á næstu árum. Þessi staðhæfing er rétt. En ákvörðunin er tekin á Alþingi.

Sjöunda dæmið um kerfið gegn lýðræðinu

Sjöunda dæmið er um þá ákvörðun að heimila innflutning á ófrystum og ógerilsneyddum matvælum til að fullnægja reglum á innri markaði Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin tók hana eftir þrýsting frá Viðreisn og Samfylkingu. Þetta var ákvörðun sem tekin var með fulltyngi mikils meirihluta kjörinna þingmanna, að þingmönnum Miðflokksins undanskildum, og gegn eindregnum mótmælum landbúnaðarkerfisins.

Niðurstaða

Þessi ræða á margt sammerkt með ræðum popúlista í Ameríku og Evrópu: Því minna sem samhengið er milli staðhæfinga og veruleika þeim mun meiri athygli fá þær í fjölmiðlum. Spurning er hvort þar leynist ekki einmitt einn helsti veikleiki lýðræðisins nú um stundir.