Brotist inn hjá jóni gnarr: „þetta var svo dularfullt“ – svona setur þú upp eftirlitsmyndavél fyrir lítinn pening

„Fyrir nokkrum árum var brotist inn heima hjá okkur. Þetta var á föstudagseftirmiðdegi. Við höfðum brugðið okkur frá í nokkra klukkutíma og skilið útidyrnar eftir ólæstar. Einhver fór inn á stigaganginn, stal úr vösum og tók tölvu sem sonur minn hafði skilið eftir.“

Þannig hljómar innlegg sem Jón Gnarr birti á Facebook. Miklar umræður hafa skapast vegna fréttar Vísis sem birti myndskeið af blaðburðardreng sem eftir að hafa skilað blaðinu í lúguna tók í hurðarhúninn á heimilinu. Jón Gnarr gefur fólki einnig gott ráð hvernig það getur sett upp ódýra eftirlitsmyndavél. Jón Gnarr segir:

„Þetta var svo dularfullt. Útidyrnar okkar eru bakdyr og ekki sérstaklega aðgengilegar, það kemur sjaldnast nokkur að þeim nema eiga erindi.“

Tveimur til þremur vikum síðar sat Jón Gnarr heima og heyrði þegar póstur var settur inn um bréfalúguna á heimili. Þá lagði hann saman tvo og tvo. Jón Gnarr segir:

„Verið var að bera út dagblað sem hætt er að koma út en helgarblaðið kom einmitt um seinnipart föstudags. Blaðburðarmaðurinn var greinilega að tékka á mannaferðum og athuga hvort hurðir væru læstar þegar hann fór um með blöðin.“

Jón Gnarr hafði samband við lögregluna og tjáði henni grun sinn. Rætt var við bréfberann en þar sem hann neitaði var lítið sem lögreglan gat aðhafst í málinu. Jón Gnarr er síðan með ráð fyrir lesendur, en til að nýta það þarf að eiga gamlan síma sem ekki er í notkun. Jón Gnarr segir:

„Ég hvet fólk til að læsa útidyrum og líka að setja upp einfaldar eftirlitsmyndavélar. Það er til dæmis hægt að nota gamla síma og setja í þá ókeypis öpp. Ég geri það.

Ég er með Presence og gamlan iPhone útí glugga og ef einhver er að sniglast í kringum heimili mitt þá fæ ég „notification“ með mynd.“