Hryllingur í hafnarfirði: börnin grátandi og í áfalli - stal lyfjum og stómavörum frá langveikri stúlku og tölvu frá einhverfum dreng

„Kæri innbrotsþjófur vona að þú sért ánægður með kjólana og lyfin hjá langveikri dóttur okkar og okkur öllum tala nú ekki um tölvurnar hjá krökkunum. Einhverfur sonurinn er held ég bara búinn að gráta meir en meðal barn gerir á sinni æfi og þorir ekki fyrir sitt litla líf nálægt hjólhýsinu. Og skiptitaskan stómavörur öll fötin okkar matur græjur tæki“

Þetta segir Petra Sigmundsdóttir í færslu á Facebook. Þá er hjólhýsi sem hún og Bjarni Þórarinn Birgisson eiga mikið skemmt. Í viðtali við Fréttablaðið greina hinir ungu foreldrar frá því að hjólhýsinu hafi verið rústað og öllu stolið þar sem það stóð á tjaldstæðinu á Víðistaðatúni. Hjónin, ásamt börnum sínum, voru í bæjarferð og brugðu sér frá til að fara á sjúkrahús en dóttir þeirra er langveik og sonur þeirra einhverfur. Petrea og dóttir hennar glíma bæði við ristilsjúkdóma. Petrea segir: „Ég var í lyfjagjöf og dóttir mín í blóðprufum.“

Þegar þau komu til baka blasti óhugnaðurinn við. Petrea segir:

„Það var búið að taka allt, ferðatöskuna með fötunum okkar, skiptitöskuna með heilsufarsbókum og bólusetningarskírteinum barnanna og allt sem við þurfum til að sinna langveikri dóttur okkar. Meira að segja sprautupenni dóttur minnar, sem inniheldur líftæknilyf, var horfin þrátt fyrir að hann nýtist engum nema henni, en hún átti að fá hann um kvöldið.“

Petrea beinir síðan orðum sínum til ódámsins:

„Vonandi ertu ánægður með þig þú sem gerðir þetta! Börnin mín eru gjörsamlega niðurbrotin og er ég búin að vera hughreysta þau og hugga í marga klukkutíma. Núna erum við að keyra heim í Bolungarvík af því að við erum ekki með nein föt. Vonandi fær Aðalheiður ekki krampa í magann út af lyfjaleysi og vonandi kemur ekki slys í fötin, af því ekki erum við með önnur til skiptanna!“

Þá segir Petrea að lokum:

„Og vonandi nýtast stómavörurnar mínar þér vel, því nú er ég á leiðinni 500km til að komast heim til mín og lifi í voninni að stómaplatan fari ekki að leka út af kviðslitinu, af því ekki er ég með eina einustu stómavöru og ekki eina einustu auka flík á sjálfa mig.“