Börn pólitíkusa og kommentakerfi: „pabbi hefur sagt mér að hann hafi grátið í koddann.“ - börn bjarna, ásmundar og gunnars braga opna sig

Róbert Smári Gunnarsson, sonur Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og Magnús Karl, sonur Ásmundar Friðriks og Margrét, dóttir Bjarna Benediktssonar voru gestir í Íslandi í dag. Þar ræddi þau um hvernig sé að vera barn umdeildra stjórnmálamanna. Þá tjáðu þau sig einnig um hvort óvægin umræða í kommentakerfum eða á samfélagsmiðlum hefði áhrif á þau og fjölskylduna.  

Róbert Smár sagði: „Það er ekki auðvelt að heyra hann vera kallaða ómenni, viðbjóð, skíthæl, níðing og ofbeldismann.“

Þá sagði Róbert að versta umræðan hefði verið í kringum Klaustursmálið. Sagðist hann efast um að hann myndi jafna sig á því.

„Ég lokaði Facebook og horfi ekki á fréttir. Maður treystir sér ekki til að vera í kringum þetta,“ sagði Róbert og bætti við að yngri bróðir hans hefði tekið umræðuna sérstaklega nærri sér.  

Aðspurður hvort hann hefði verið sár út í föður sinn vegna hegðunar hans á Klausturbar, svaraði Róbert að hann hefði fyrst og fremst fundið fyrir vonbrigðum. Þetta hefði birst honum öðruvísi sem fjölskyldumeðlimi.

„Maður sér þetta frá allt öðru sjónarhorni. Þetta er fjölskyldufaðir. Þetta er afi. Við sjáum hann þannig. Þetta var ekki sú mynd sem birtist mér.“

Róbert bætti við að hann og bræður hans hefðu allir orðið fyrir aðkasti. Hann væri kallaður „litli pabbastrákur og að pabbi hans stýrði því sem hann ætti að vera að segja. Þá hefði hann verið sagður viðbjóður vegna þess að hann væri sonur Gunnars Braga.  Bætti Róbert við að stundum óskaði hann sér að faðir hans væri ekki stjórnmálamaður. Þá sagði Róbert að lokum:

„Ég hélt fyrst að þetta myndi venjast, svona er umræðan, svona er pólitíkin, við venjumst þessu bara en svo kemst maður að því síðar meir að þetta er ekkert sem venst. Þú venst ekkert svona umtali eða svona ljótum skrifum sem sumir viðhafa. Ég velti oft einu fyrir mér, þetta fólk, þetta er fámennur hópur en hann er hávær sem er á komenntakerfunum, fer hamförum

Mig hefur oft langað að hitta þetta fólk, myndi það þora að segja þetta við hann persónulega? Það liggur mér á hjarta.“

Margrét dóttir Bjarna Benediktssonar sagði að hún væri heppin með föður. Hún bætti síðan við að umræðan í kommentakerfum hefði vissulega áhrif.  

„Ég les ekki kommentakerfið í dag. Það er vitleysa. Svo ég sleppi því bara.“

Þá sagði hún ranga mynd vera dregna upp af föður hennar. Kvaðst hún vera stolt af föður sínum. Bætti Margrét við að henni fyndist sem umræðan hefði versnað eftir hrun:

„Það er með ólíkindum hvað er verið að segja.“

Magnús Karl sonur Ásmundar Friðrikssonar sagði að hann hefði aldrei skammast sín vegna gjörða föður hans í stjórnmálum. Hann reyndi að sleppa því að lesa kommentakerfin. Þá sagði Magnús Karl að hann væri alls ekki alltaf sammála föður sínum þegar kæmi að stjórnmálum.  Magnús Karl sagði:

„Hef aldrei skammast sín fyrir föður sinn. Pabbi er mitt mesta átrúnaðargoð.“

Þá var hann spurður hvað væri það versta sem hann hefði upplifað:  

„Það er ekki það sem ég hef beint upplifað. Það er meira frekar að horfa á föður minn og móður líða mjög illa yfir umtalinu. Pabbi hefur sagt mér að hann hafi grátið í koddann.“