Börn buðu ráðherrum á barnaþing í alþingishúsinu í dag

Börn, sem verða fulltrúar á barnaþingi 21. nóvember næstkomandi, afhentu ráðherrum ríkisstjórnarinnar og forseta Alþingis boðsbréf á barnaþingið í dag í Alþingishúsinu.

„Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að auka áhrif barna og ungmenna og meðal annars þess vegna var fest í lög að halda barnaþing annað hvert ár með þátttöku barna hvaðanæva af landinu. Fyrsta barnaþingið er nú framundan og færðu fulltrúar barna ráðherrum boðsbréf á þingið í dag. Ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að hlýða á sjónarmið barna og ungmenna um hvað betur má fara í samfélaginu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Barnaþing verður haldið í fyrsta skipti í ár og er það gert samkvæmt breytingum á lögum um umboðsmann barna sem samþykkt voru af Alþingi í lok síðasta árs. Þar er honum falið að halda þing um málefni barna á tveggja ára fresti og skal umboðsmaður bjóða fjölbreyttum hópi barna til þingsins, alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna.

Markmiðið með barnaþinginu er að efla samráð við börn og mynda vettvang fyrir samtal og samráð um málefni barna til framtíðar. Um 170 börn taka þátt í þinginu og voru þau valin með slembivali úr þjóðskrá.