Björn segir brottvísunina lögmæta: verið að nýta konuna í annarlegum tilgangi

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir á heimasíðu sinni að brottvísun þungaðrar konu frá Albaníu hafi verið lögmæt. Segir hann innlenda aðila standa á bakvið upphlaup vegna málsins en það voru No Borders sem fyrst vöktu athygli á því að vísa ætti konunni úr landi, þvert á ráðleggingar lækna. Var konan 19 klukkutíma á ferðalagi í gær.

Þá heldur Björn fram að Útlendingastofnun hafi ekki brotið nein lög og rekja megi upphaf málsins til fjölskyldunnar sem hafi komið ólöglega til landsins. Björn segir:

„Þeir sem að úrlausn þessara mála starfa vita að við þessar aðstæður virðist oft beint samband milli andstæðinga yfirvaldanna og fréttastofu ríkisútvarpsins. Eftir að upplýst var um samráð milli fréttamanns og stjórnenda seðlabankans um húsleitarfrétt hjá Samherja standast vinnureglur fréttastofunnar ekki gagnrýni, jafnvel þótt formaður Blaðamannafélags Íslands leggi blessun sína yfir þær. Fréttastofunni ber að gera hreint fyrir sínum dyrum.“

Vill Björn meina að sé farið í saumana á þessum málum komi í ljós að ýmsum aðferðum sé beitt til að afla sér bandamanna til að sverta starfsmenn þess og stjórnmálamenn. Þá segir Björn að verið sé að nýta sér konuna til að ná fram hlutum og No Borders veki athygli á málinu til að stuðla að sundrung í samfélaginu.

„Í nágrannalöndunum hafa umræður þróast á þann veg að hætt er að veitast að yfirvöldum eins og hér er gert þegar þau sinna skyldum sínum í útlendingamálum.“