Björgvin jón nýr fjármálastjóri daga

Björgvin Jón Bjarnason hefur verið ráðinn fjármálastjóri Daga, en fyrirtækið er leiðandi í fasteignaumsjón, ræstingum og veitingaþjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir.  Björgvin Jón, sem áður var framkvæmdastjóri fagfjárfestingasjóðsins TFII, auk þess að sinna eigin rekstri, tók við stöðunni 1. nóvember 2019. 

„Það er mér mikil ánægja að ganga til liðs við Daga. Félagið er afar öflugt á sínu sviði, með mikla möguleika til vaxtar, en ég tel mikil tækifæri liggja í fasteignaumsjón og heildstæðri þjónustu við eigendur og rekstraraðila fasteigna. Dagar hafa ætíð lagt mikið upp úr persónulegu og nánu sambandi við viðskiptavini sína og ég hlakka til að verða hluti af því,“ segir Björgvin Jón Bjarnason, fjármálastjóri Daga.

Saga Daga nær aftur til ársins 1980 þegar Ræstingarmiðstöðin sf. var stofnuð, en hún varð síðar að ræstingardeild Securitas. Aldamótaárið 2000 keypti alþjóðlega fyrirtækið ISS A/S ræstingardeild Securitas og árið 2017 keyptu stjórnendur fyrirtækisins, ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta, allt hlutafé fyrirtækisins.  Dagar eru nú með starfsemi á yfir 20 stöðum á landinu og þar starfa nú um 800 starfsmenn sem ræsta ríflega 720.000 fermetra hjá um 600 viðskiptavinum, sjá um húsumsjón og rekstur fasteigna og framreiða ríflega 360.000 máltíðir á ári fyrir fyrirtæki og stofnanir. 

„Dagar er metnaðarfullt fyrirtæki, sem leggur áherslu á að gefa starfsmönnum sínum tækifæri til vaxtar í starfi. Þá er félagið í fremstu röð hvað varðar jafnréttismál, hefur jafnlaunavottun og leggur metnað í að efla faglega þekkingu starfsmanna sinna. Það er svo margt sem gerir Daga að áhugaverðu fyrirtæki og það sést vel í þeim góða starfsanda sem ríkir hjá okkur og gerir það að skemmtilegum vinnustað,“ segir Björgvin Jón.

Björgvin Jón er iðnaðartæknifræðingur, kvæntur Guðlaugu Sigurðardóttur, fjármálastjóra hjá Landsneti og eiga þau þrjú börn.