Björguðu fína fólkinu á meðan áhyggjufull börnin horfðu á mömmu og pabba í öngum sínum og jafnvel skilja

„Hvaða áhrif ætli það hafi á börn að missa heimili sitt og öryggi? Að sjá mömmu eða pabba í öngum sínum vegna óbilgirni og yfirgangs fjármálafyrirtækja sem engu eira? Að þurfa svo að flytja, og kannski flytja aftur, og aftur, með öllu sem því fylgir; nýjum skóla, nýju umhverfi, nýjum vinum? Og svo til að bæta gráu ofan á svart, þá eru mamma og pabbi ennþá jafn áhyggjufull, því bankinn er ekki enn búin að fá nægju sína - hafi hjónabandið þá yfirleitt staðist álagið.“

Það er staðreynd að þegar Titanic sökk þá var ekki pláss fyrir alla í björgunarbátunum og það er líka staðreynd að sumir þeirra sigldu hálftómir í burtu með „fína fólkið“ á meðan „pöpullinn“ mátti berjast fyrir lífi sínu. [...] Steingrímur J. og Jóhanna (Sigurðardóttir) hafa oft líkt sér við björgunarmenn og hreykt sér af björgunarafrekum sínum í kjölfar hrunsins.

Þetta segir Ragnar Ingólfsson og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna í pistli á Vísi þar sem þau segja að fjölda Íslendinga sé haldið í ánauð bankanna fyrir velmegun annarra og eigi mestan þátt í endurreisn efnahagslífsins sem stjórnmálamenn gorti sig af. Þau segja:

„Það er staðreynd að þau settu fjármálaöflin (1. farrými) í algjöran forgang. Þeim skyldi „bjarga“ hvað sem það kostaði og að þeirra mati voru nokkur þúsund heimili (3. farrými) „ásættanlegur fórnarkostnaður“ í þessum skelfilegu „björgunaraðgerðum“ þeirra.

Það getur svo sem vel verið að þau hafi mætt með björgunarbátana sína, en þau björguðu bara útvöldum. Þau björguðu „fína fólkinu af efri þilförum“ en hreinlega notuðu árarnar til að lemja aðra í burtu sem reyndu að komast í bátanna. Það fólk mátti reyna að troða marvaðann í von um að halda sér á floti þar til hjálp bærist – og margir þeirra hafa gefist upp.“

Þá segir einnig: „Það er hins vegar staðreynd að ólíkt Titanic þar sem ekki var pláss fyrir alla, þá hefði vel verið pláss fyrir okkur öll í bátunum hjá Jóhönnu og Steingrími ef þau hefðu bara vilja hleypa öllum um borð. Þau tóku bara ákvörðun um að gera það ekki. Sú staðreynd ein og sér gerir stöðuna í dag jafnvel enn sorglegri en annars.“

Þá segja þau í pistlinum að bönkunum hafi ekki aðeins verið „bjargað“. Þeir hafi makað krókinn frá Hruni á meðan þeir dunda sér við að ryksuga upp heimili landsins eitt af öðru. Þeir hafa hagnast stórkostlega á afbrotum sínum og mistökum á árunum fyrir hrun.

Ragnar og Ásthildur segja að mest hafa þeir „lagt til“ sem tapað hafa heimilum sínum en ekki megi gleyma „framlagi“ þeirra sem hafa gert nauðarsamninga við bankann og oft hafi það verið á ólöglegum forsendum. Það þýði að þau eru að greiða mun meira af húsnæðislánum sínum en þau ættu nokkurn tímann að þurfa að gera.

Þá segja Ragnar og Ásthildur að staða þeirra sem misstu heimili sín eftir hrun sé hræðileg. Þau segja: „Auðvitað hefur fólki gengið misvel að fóta sig að nýju, en upp til hópa er þetta sama fólkið og er fast á leigumarkaði þar sem stóru leigufélögin leigja því „sömu“ eignirnar á okurprís og hirtar voru af „því sjálfu“, eignir sem „gammarnir“ fengu jafnvel á gjafverði.“

Kulnun sem hafi ekki sést áður

„Við horfum á kvíða og kulnun aukast í þjóðfélaginu í mæli sem ekki hefur sést áður. Álagið sem fylgir slæmri skuldastöðu og því að sjá aldrei fram á bjartari tíma, er verulega slítandi og skapar gríðarlegt álag á bæði einstaklinga og heimili,“ segja þau Ragnar og Ásthildur.

Þau benda á að þau tugþúsundir sem Hrunið og að missa húsnæði  hafi orðið fyrir gífurlegu sálrænu álagi. Einnig vilja þau að fólk sem hafi misst heimili sín til bankanna eftir hrun eigi skilið að fá til baka það sem stolið var af þeim.

„Það á einnig skilið uppreist æru eftir að hafa verið haft fyrir rangri sök og tekið á sig hegningu fyrir brot sem það framdi ekki,“ segja þau og bæta við á öðrum stað:

„Af hverju ætli aukning margs konar álagssjúkdóma hafi verið fordæmalaus á síðustu árum? Og hvað með börnin? Hvaða áhrif ætli það hafi á börn að missa heimili sitt og öryggi? Að sjá mömmu og/eða pabba í öngum sínum vegna óbilgirni og yfirgangs fjármálafyrirtækja sem engu eira? Að þurfa svo að flytja (og kannski flytja aftur, og aftur) með öllu sem því fylgir; nýjum skóla, nýju umhverfi, nýjum vinum? Og svo til að bæta gráu ofan á svart, þá eru mamma og pabbi ennþá jafn áhyggjufull, því bankinn er ekki enn búin að fá nægju sína - hafi hjónabandið þá yfirleitt staðist álagið.“

 Þá segja þau að lokum: Það er líka algjörlega út í hött, og lýsir annað hvort einbeittum brotavilja eða svakalegu þekkingar- og andvaraleysi, að ætla að selja bankanna án þess að kannað sé hvernig hagnaður þeirra er tilkomin, hversu mikið af honum sé löglega fenginn, hversu mikið af honum sé illa fengið fé, og hver raunveruleg staða þeirra er. Til að finna þetta út þarf að gera Rannsóknarskýrslu heimilanna. Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!“