Bjarni gaf áttavilltri konu far og gjöf árið 2003: 16 árum síðar barst honum óvænt bréf

„Snemma í sumar fékk ég bréf frá konu sem býr í Barcelona á Spáni. Hún sagðist vilja þakka mér fyrir það þegar ég samþykkti að gefa henni, ferðalang með bakpoka, nýlentri og dálítið áttavilltri, far í bæinn.“

Þannig hefst bréf sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti á Facebook-síðu sinni. Greinir Bjarni frá að atvikið átti sér stað árið 2003. Bjarni var þá að koma heim til Íslands eftir kosningafund með Íslendingafélaginu í Kaupmannahöfn. Bjarni var í framboði í fyrsta sinn, var í 5. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í SV kjördæmi. Við gefum Bjarna orðið.  

„Á leiðinni í bæinn spjölluðum við um heima og geima og ég lét þessa vinalegu konu hafa að kveðjugjöf einn litprentaðan kosningabækling. Ég minnist þess að hafa þótt það dálítið sniðugt því hvorki myndi hún kjósa né yfirhöfuð geta lesið mikið í bæklingnum.“

Svo liðu árin

„Síðan líða 16 ár og þá rekst hún á bæklinginn góða við tiltekt. Framboð Sjálfstæðisflokksins í SV frá 2003. Henni datt í hug að fletta mér upp á netinu og í framhaldinu sendi hún mér afar hlýlegt og fallegt bréf. Þar þakkaði hún mér fyrir skemmtileg kynni og gladdist í leiðinni yfir því að ég sæti nú í ríkisstjórn,“ segir Bjarni og bætir við að lokum:

„Ég sagði henni í svarbréfi að ég vonaði að hún kæmi aftur, og þá með fjölskylduna sem hún hefur eignast í millitíðinni.“